Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Forstöðumaður Arnarholts: „Ósóminn er varinn ofan frá“

Mynd: Guðmundur Bergkvist / RÚV
Forstöðumaðurinn í Arnarholti sagði að mikill „sori“ hefði átt sér stað á heimilinu, í bréfi sem hann sendi Borgarspítalanum árið 1984. Hann varpaði ábyrgð meðal annars á yfirhjúkrunarmanninn og sagði að ósóminn væri „varinn ofan frá“. Þá gagnrýndi hann harðlega nefndina sem komst að þeirri niðurstöðu að ekkert þyrfti að gera í Arnarholti. Hann sagði að málið væri rannsóknarefni og spáði að það yrði blaðamál.

Starfsfólk á vistheimilinu Arnarholti lýsti ómannúðlegri meðferð á heimilisfólki í ítarlegum vitnaleiðslum fyrir tæpri hálfri öld. Greint hefur verið frá því sem fram kom í vitnaleiðslunum í fréttum í vikunni.

Forstöðumaður í Arnarholti, allt frá 1944 til ársins 1979, var Gísli Jónsson. Fréttastofa hefur undir höndum bréf sem Gísli sendi Borgarspítalanum árið 1984, fimm árum eftir að hann hætti sem forstöðumaður. Borgarskjalasafn staðfesti við fréttastofu í dag að bréfið væri til í málasafni Borgarspítalans.

Allir dregnir í dilka

Bréfið er eins konar uppgjör Gísla við tímann í Arnarholti, en yfirskrift þess er „Síðbúnir þankar um Vistheimilið í Arnarholti“.

Gísli rekur sögu heimilisins og segir meðal annars að illa hafi gengið að ráða hjúkrunarkonur til starfa, og því hafi verið notast við ófaglært fólk að mestu leyti.

Árið 1962 hafi hins vegar verið ráðinn nýútskrifaður maður frá hjúkrunarskólanum. Miklar vonir hafi verið bundnar við manninn, og segir Gísli að hann hafi byrjað með miklum tilþrifum. Ekki hafi hins vegar liðið á löngu þangað til bera fór á ýmsum undarlegum háttum í fari hjúkrunarmannsins, bæði gagnvart sjúklingum og starfsfólki.

Allir voru dregnir í dilka, og flestir voru mjög slæmir, en alltaf var einhver einn góður og þá mjög góður í nokkra daga, svo varð hann langverstur af öllum,

skrifar Gísli í bréfinu.

Gísli segir einnig að starfsháttum hjúkrunarmannsins hafi verið harðlega mótmælt af starfsfólki Arnarholts.

„Hártoga og ómerkja framburð þeirra sem sögðu satt“

Þá víkur Gísli sögunni að nefnd læknanna þriggja sem skipuð var til þess að rannsaka aðbúnað í Arnarholti. Nefndin tók viðtöl við 24 þáverandi og fyrrverandi starfsmenn í Arnarholti og lýstu margir þeirra ómannúðlegri meðferð á heimilinu. Þrátt fyrir það komst nefndin að þeirri niðurstöðu að engra úrbóta væri þörf.

Um þetta skrifar Gísli:

Og voru þetta eins konar yfirheyrslur þar sem leitast var við að hártoga og ómerkja framburð þeirra sem sögðu satt og rétt frá því sem um var spurt, og var það allt mjög í sama anda eins og framkoma fyrrverandi borgarlæknis, sem ávallt varði gerðir hjúkrunarmannsins, hverjar sem þær voru.

Og Gísli heldur áfram:

Þegar læknanefndin hafði „yfirheyrt“ meginhluta starfsfólksins sem var starfandi í Arnarholti á þessum tíma, var hóað saman jafn mörgu fólki sem hafði verið í afleysingum stuttan tíma og þekkti nánast ekkert til málsins, en var matað réttum andsvörum við alla sem höfðu sagt sannleikann. Sem sagt staðhæfing á móti staðhæfingu og málið farsællega í höfn fyrir fyrrverandi borgarlækni og co, en sjúklingarnir í Arnarholti sátu eftir með hjúkrunarmanninn og sitja með hann enn. Öll framkoma læknanefndarinnar svo og framkoma fyrrverandi borgarlæknis og co í þessu máli gæti verið ærið rannsóknarefni, eða jafnvel blaðamatur, og er ekki útilokað þótt seint sé, að það gæti látið sig gera,

skrifar Gísli í bréfinu.

Þá segir Gísli að það sé kominn tími til að laga hjúkrunarmálin í Arnarholti, það sé aldrei of seint. Leggur hann til að skipt verði um „yfirhjúkrunarstarfskraft“.

Gísli endar bréfið á þessum orðum:

Hér að framan hafa verið nefnd örfá dæmi um „afreksverk“ [hjúkrunarmannsins] þann tíma sem ég hef þurft að umgangast hann í Arnarholti, dæmin eru því miður alltof mörg og hafa að geyma mikinn sora, sérstaklega hvað sjúklingana snertir en engu að síður stofnunina, starfsliðið [...]. Svona mál sem þessi gætu aldrei gerst nema við óheilbrigðar aðstæður, þar sem ósóminn er varinn ofan frá, þar sem litlir karlar hafa komist í áhrifastöður og hafa haft tækifæri til að verja ósómann, maður hlýtur að vona að það sé liðin tíð, og heilbrigt fólk vinni að heilbrigðismálum hér eftir.

Kirkjulandi 5.2. 1984
Gísli Jónsson.

Gísli lést sjö árum síðar, árið 1991.