Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Ekki komist hjá því að hafa próf í húsnæði Háskólans

Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink RÚV - RÚV Anton Brink
Það er mat kennara og sviðsstjórnar verkfræði- og náttúruvísindasviðs Háskóla Íslands að ekki verði hjá því komist að halda hluta lokaprófa í húsnæði Háskóla Íslands. Þetta segir Sigurður Magnús Garðarsson forseti sviðsins. Hann segir að allt bendi til þess að hægt verði að fara eftir sóttvarnaráðstöfunum við próftökuna.

Stúdentar við Háskóla Íslands hafa gagnrýnt það fyrirkomulag lokaprófa við skólann sem kynnt var í gær, en í því felst að hluti prófanna mun fara fram í húsnæði skólans. Stúdentaráð HÍ telur þetta óábyrgt í ljósi kórónuveirufaraldursins og að þetta brjóti í bága við fyrrum yfirlýsingu rektors HÍ þar sem fram kom að öll lokapróf yrðu rafræn nema samkeppnispróf og próf þar sem námsmati yrði ekki komið við á annan hátt.

Fyrirkomulagið er á forræði einstakra deilda, en fræðasviðin bera ábyrgðina. 

Að sögn Sigurðar verða 53 af þeim 120 lokaprófum sem fyrirhuguð eru á verkfræði- og náttúruvísindasviði haldin í húsnæði skólans.  „Við mátum þetta á þennan hátt, hlustuðum á nemendur og fórum ekki síst eftir niðurstöðum könnunar sem var gerð á líðan nemenda í faraldrinum,“ segir Sigurður.

En hefði ekki verið hægt að hafa þessi próf rafræn? „Það var mat viðkomandi kennara að það væri ekki hægt að halda þessi próf á annan hátt.“ 

Sigurður segir að Háskólinn hafi verið í nánu samtali við sóttvarnayfrvöld frá upphafi faraldursins og að prófin verði, eins og allt skólastarf, samkvæmt þeim sóttvarnareglum sem eru í gildi hverju sinni. Hann segist ekki eiga von á öðru en að hægt verði að framfylgja þeim.  „Það verða ekki mörg próf í gangi, þannig að það ætti að vera auðvelt að dreifa nemendum á milli stofa.“