Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Danska stjórnin í standandi vandræðum

Kristjánsborgarhöll, aðsetur danska þingsins - Mynd: CC0 / Pixabay
Björn Þór Sigbjörnsson og Þórunn Elísabet Bogadóttir ræddu við Boga Ágústsson um minkamálið í Danmörku og stöðu kórónuveirufaraldursins í heiminum í Heimsglugganum á Morgunvaktinni í morgun.

Hart er sótt að dönsku stjórninni og aðallega Mogens Jensen, landbúnaðarráðherra, vegna þess að lög heimiluðu ráðherrum ekki að fyrirskipa að öllum minkum í landinu skyldi lógað. Þetta var vegna hættu af stökkbreyttri kórónaveiru í minkum. Stjórnmálaskýrendur í Danmörku segja hins vegar að margt bendi til þess að hinn raunverulegi skúrkur í málinu sé Mette Frederiksen. Hún hafi keyrt málið í gegn. Hennar staða er ekki talin í hættu, stuðningsflokkar stjórnarinnar á þingi vilji ekki hætta á að hún þurfi að hrökklast úr embætti því þar með félli stjórnin. Enginn hafi áhuga á þingrofi og nýjum kosningum

Faraldurinn er enn í vexti í mörgum löndum heims en sums staðar virðist sem tekist hafi að ná böndum á kórónuveirunni. Ástandið heldur þó áfram að versna í Bandaríkjunum þar sem þeim fjölgar dag frá degi sem greinast og eru lagðir inn á sjúkrahús. Í Svíþjóð var Stefan Löfven, forsætisráðherra, svartsýnn í tali á fundi með fréttamönnum í gær.