Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Bjartsýnn á bólusetningar á fyrri hluta næsta árs

12.11.2020 - 11:57
Mynd: Almannavarnir / Almannavarnir
Fréttir af góðum árangri bólusetninga gegn COVID-19 eru mjög ánægjulegar, segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. Hann er bjartsýnn á að hægt sé að hefja bólusetningu gegn farsóttinni hér á landi á fyrrihluta næsta árs.

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hafa samið bandaríska lyfjaframleiðandann Pfizer um kaup á bóluefni sem sýnt hefur verið fram á að veiti ónæmi fyrir kórónuveirunni. Íslandi er tryggður sami aðgangur að bóluefninu og öðrum ríkjum ESB.

Þórólfur á von á að fá fréttir af öðrum bóluefnum sem Ísland hefur tryggt sér aðgang að á næstunni. „Vonandi verða þær fréttir jafn ánægjulegar og fréttirnar af bóluefninu frá Pfizer.“

„Það er fyrst núna að mínu mati sem við getum raunverulega farið að eygja til lands hvað varðar bólusetningu gegn COVID-19 þó að margar niðurstöður eigi eftir að koma út úr rannsóknum á þessum bóluefnum, sem setja hugsanlega strik í reikninginn,“ sagði Þórólfur á upplýsingafundi almannavarna og landlæknis í dag.

„En ég held að þessar upplýsingar síðustu daga gefi okkur von um að við getum hafið bólusetningar í byrjun næsta árs. Þessar upplýsingar eiga því að blása okkur von í brjósti um að við séum hugsanlega að horfa fram til loka COVID-19 þó að sjálfsagt sé ýmislegt sem geti komið upp á næstunni sem geti komið í veg fyrir þær vonir.“

Það er mikilvægt að við höldum áfram með árangursríkar aðgerðir til þess að faraldurinn verði í lágmarki þar til bólusetning getur hafist. Þess vegna telur Þórólfur rétt að fara hægt í tilslakanir á sóttvarnaaðgerðum.

Þórólfur er búinn að skila minnisblaði til heilbrigðisráðherra með tillögum að sóttvarnarnaaðgerðum frá og með 18. nóvember. Þær reglur sem gilda nú renna út 17. nóvember. Sóttvarnalæknir vildi ekki ræða efni minnisblaðsins en sagði þó að í því felist tilmæli um að slakað verði á þeim takmörkunum sem gilda nú.