Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Bæta má stöðu fólks á berstrípuðum bótum

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra segir hægt að laga stöðu þeirra sem eru á berstrípuðum bótum enda ætti það aðeins við um 1-2% þeirra sem fái bætur úr almannatryggingakerfinu.

Ráðherrann sagði í svari til Guðmundar Inga Kristinssonar þingmanns Flokks fólksins í óundirbúnum fyrirspurnartíma á þinginu í morgun að víða í kerfinu væri að finna fólk sem fengi góðan stuðning, það fólk gleymdist alltaf í umræðunni.  

Guðmundur Ingi beindi þeirri fyrirspurn til fjármálaráðherra hvernig hann sæi eftirmál núverandi ríkisstjórnar fyrir sér. Þingmaðurinn bar saman stöðu lífeyrisþega nútímans og fólks í Arnarholti sem hann sagði hafa verið svelt til hlýðni og lokað inni.

Hvort að eftir 50 ár yrðu höfðuð skaðabótamál vegna fólks sem var innilokað vegna COVID-19, ætti ekki fyrir mat og treysti sér ekki til að standa í biðröðum hjálparstofnana. 

Fjármálaráðherra kvaðst ekki viss um hver spurningin væri en tók undir að vert væri að hafa áhyggjur af einangrun fólks vegna sóttvarnarráðstafana. Á hinn bógi sagði hann Íslendinga geta verið stolta af almannatryggingakerfinu.

Þeir gætu fagnað því öryggisneti sem byggt hefði verið upp, að á Íslandi væri landsframleiðsla með því hæsta sem gerðist í heiminum og þeim ávinningi væri skilað inn í heilbrigðis- og velferðamál. 

Þó, sagði Bjarni ljóst að umbætur yrði að gera, kerfið væri flókið og ræða þyrfti af yfirvegun hvaða breytingar þyrfti að gera á því áfram. Unnið hafi verið að endurskoðunum undanfarin ár.

Viðbrögð Guðmundar Inga voru þau að segja Bjarna telja að fólk gæti lifað á landsframleiðslu og meðaltali. Hann sagði marga þurfa að lifa af 220 þúsundum króna á mánuði sem væri erfitt, tíu þúsund börn byggju við fátækt, tíu þúsund börn við vanrækslu og ofbeldi. Því fólki væri kerfið að bregðast algerlega, „er ekki tími til kominn að enginn þurfi að svelta á Íslandi?“ 

Svar Bjarna var að markmiðið væri að byggja samfélagsgerð sem tryggir að enginn verði útundan en ekki væri hægt að handstýra lífi hvers og eins. Hlutverk stjórnmálanna væri að tryggja fólki tækifæri.