Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Bændur andmæla niðurskurði

Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Bændur í Skagafirði hafa andmælt fyrirhuguðum niðurskurði vegna riðu. Tryggja þurfi fyrst sanngjarnar bætur og tímabært sé að sjá hvort aðrar leiðir en niðurskurður skili árangri.

Riða greindist á fjórum bæjum í Skagafirði og þegar hefur verið skorið niður á tveimur þeirra. Til stóð að skera niður á Syðri-Hofdölum og Grænumýri í þessari viku. Atli Már Traustason bóndi á Syðri-Hofdölum hefur andmælt fyrirhuguðum niðurskurði á bænum en riða greindist í aðkomuhrút sem dvaldi á Hofdölum. Atli segir ferðir hrútsins hafa verið kortlagðar vel, búið sé að slátra öllum dýrum sem komust í návígi við hrútinn og ekkert þeirra hafi greinst með riðu.

Landbúnaðarnefnd Sveitarfélagsins Skagafjarðar hefur mótmælt niðurskurðinum og segir tímabært að sjá hvort markviss hreinsun á býlinu og strangt eftirlit skili ekki sama árangri og niðurskurður. Sigurborg Daðadóttir yfirdýralæknir segir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hafa óskað umsagnar Matvælastofnunar, málið sé í vinnslu og frestur til að skila inn umsögn sé á mánudaginn. Hún vildi ekki tjá sig frekar um málið að svo stöddu. 

Guttormur Hrafn Stefánsson bóndi á Grænumýri hefur líka andmælt niðurskurði á þeim forsendum að fyrst verði tryggt að niðurskurður verði bættur að fullu. Niðurskurðarbætur eiga meðal annars að gera bændum kleift að kaupa nýjan bústofn og hefja búskap á ný að hreinsunartíma loknum. Upphæð bóta stendur hins vegar ekki undir þeim kostnaði. Ráðuneytið hefur hafið vinnu við að meta og endurskoða stjórnsýslu og reglur sem varða málefnið, áformað er að þeirri vinnu ljúki um mitt næsta ár.