Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Áhyggjur af skertri flugþjónustu á Vestfjörðum

12.11.2020 - 14:52
Mynd með færslu
 Mynd: Einar Rafnsson - RUV
Samtök atvinnurekenda á sunnanverðum Vestfjörðum hafa þungar áhyggjur af flugþjónustu á svæðinu. Nýir samningar Vegagerðarinnar og Norlandair feli í sér þjónustuskerðingu. Bæjarstjóri Vesturbyggðar segir mörgum spurningum ósvarað.

Vegagerðin hefur gengið frá samningum við Erni ehf. um flug á milli Reykjavíkur og Hafnar. Þá hefur verið samið við flugfélagið Norlandair ehf. um flug á milli Reykjavíkur og Gjögurs og Reykjavíkur og Bíldudals. Skrifað var undir samninga þann 2. nóvember og flugfélögin byrja að fljúga samkvæmt nýjum samningum þann 16. nóvember.

Áhyggjur af minni þjónustu

Ernir flaug áður á alla staðina þrjá en útboð á leiðunum voru auglýst í apríl. Samtök atvinnurekenda á sunnanverðum Vestfjörðum lýsa yfir þungum áhyggjum vegna breytinganna. Flugfélagið Ernir hafi þjónað Vestfirðingum við krefjandi aðstæður í 50 ár svo þetta sé reiðarslag fyrir samfélagið. „Í staðinn á að bjóða helmingi minni flugvél sem búin er jafnþrýstibúnaði og 50 ára gamlan Twin Otter án jafnþrýstibúnaðar,“ segir í tilkynningu frá samtökunum. Þjónustan taki því stökk niður á við. Vegagerðin tók tilboði lægstbjóðanda og gagnrýna samtökin að þjónustustig og gæði flugflotans hafi ekki meira vægi en raun ber vitni þegar svo lítill munur sé á tilboðunum. 

Ekki eitt heldur allt

Þá benda samtökin á að fragtflug sé mikilvæg þjónusta sem atvinnulífið geti ekki verið án og með flugflotanum sem boðið sé upp á verði ekki mögulegt að sinna þeirri þjónustu. Það sjái ekki fyrir endann á óboðlegri þjónustu á sunnanverðum Vestfjörðum. Vegir á svæðinu séu meira og minna ónýtir og vetrarþjónusta í lamasessi. Ferjan yfir Breiðafjörð sé eldgömul og geti stoppað hvað úr hverju. Útflutningstekjur svæðisins hafi margfaldast síðustu ár í takt við uppgang í atvinnulífinu og séu orðnar þær hæstu á hvern íbúa á landinu. Stjórn samtakanna samþykki því ekki svona vinnubrögð og mótmæli ráðstöfuninni harðlega.

Mörgum spurningum ósvarað

Rebekka Hilmarsdóttir, bæjarstjóri í Vesturbyggð tekur undir þetta, ef rétt reynist og þjónusta á Bíldudalsflugvelli skerðist. Sveitarfélagið hafi óskað eftir upplýsingum frá Vegagerðinni um þá þjónustu sem verður veitt en því hafi ekki verið svarað að fullu. Það sé skýlaus krafa Vesturbyggðar að áætlunarflug verði ekki með nokkru móti skert enda treysti atvinnulíf og íbúar á öruggar flugsamgöngur. 

Hún segir vinnubrögð Vegagerðarinnar vekja furðu. Sveitarfélaginu hafi ekki verið tilkynnt um nýjan rekstraraðila fyrr en viku eftir undirskrift samninga. Undirbúningstími flugfélaganna sé lítill og mikil óvissa sem skapist. Óteljandi spurningar hafi vaknað og mörgum þeirra sé enn ósvarað.