Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

18 sjálfsvíg skráð fyrstu sex mánuði ársins

Mynd með færslu
 Mynd: Erik Söderström - Flickr
18 sjálfsvíg voru skráð í dánarmeinaskrá embættis landlæknis fyrstu sex mánuði þessa árs. Um var að ræða 15 karla og þrjár konur. Þetta er svipaður fjöldi og að meðaltali fyrri helming ársins undanfarin tíu ár, eða um fimm á hverja 100.000 íbúa.

Samkvæmt upplýsingum frá embætti landlæknis er ekki hægt að draga ályktun um fjölgun eða fækkun sjálfsvíga fyrr en í lok þessa árs. 

Í fyrra tóku 39 menn og konur hér á landi eigið líf. Geðhjálp og Píeta samtökin stóðu nýverið fyrir átakinu 39 þar sem vakin er athygli á níu aðgerðum sem ráðast þarf í í geðheilbrigðismálum. Þar eru stjórnvöld hvött til að setja geðheilbrigðismál í forgang.

Píeta samtökin sinna forvarnarstarfi gegn sjálfsvígum og sjálfsskaða og hægt er að hringja allan sólarhringinn í hjálparsíma Rauða krossins, 1717 eða hafa samband við netspjallið 1717.is.