Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Umboðsmaður: Nánast útilokað að sinna frumkvæðismálum

Mynd með færslu
 Mynd: Skjámynd - Alþingi
Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis, segir embættið ekki geta sinnt frumkvæðismálum áfram vegna fjárskorts.. Þetta kom fram á fundi hans með stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis í morgun.

Umboðsmanni varð tíðrætt um skort á fjármagni á sama tíma og ábendingum og kvörtunum hefur fjölgað mjög.

Það verði til til þess að með óbreyttum hætti verði ekki lengur mögulegt að sinna frumkvæðismálum. Í skýrslu umboðsmanns segir að frumkvæðiseftirlit sé sérstaklega til þess fallið að veita embættinu færi á því að stuðla að umbótum í stjórnsýslunni og þar með að rækja það lögbundna hlutverk að tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins.

Tryggvi sagði að mjög erfitt hafi verið að sinna því hlutverki undanfarið og nefndi skort á mannskap í því samhengi. Því sé nánast ómögulegt að halda frumkvæðisathugum áfram. Hann sagði ekki trúverðugt að embætti umboðsmanns aðhefðist ekkert eftir ábendingar. „Það er betra að vera hreinskilinn og segja að ekki sé hægt að sinna þessu,“ sagði Tryggvi. 

Engin ný frumkvæðisathugun hófst árið 2019 en einu máli var lokið um vistun fólks í sjálfsvígshættu í fangageymslum. Tryggvi sagði áhættu í því fólgna að gera ekki frumkvæðisathuganir og bætti við að kannski vilji einhverjir innan stjórnsýslunnar ekki láta ónáða sig varðandi umbætur.

Því segist Tryggvi ætla að pakka saman frumkvæðismálunum því komið sé að þeim punkti að segja þurfi að ekki sé hægt að sinna þessu. Fulltrúar í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd lýstu áhyggjum af þessarri stöðu og kváðu brýnt að embætti umboðsmanns Alþingis fengi auknar fjárveitingar.