Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

„Stefna stjórnvalda er enn að svelta fatlað fólk“

Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
„Núverandi stefna stjórnvalda er enn að svelta fatlað fólk til hlýðni. Það er gert með því að skammta nógu naumt fjármagn. Tölum bara hreint út, fatlað fólk er svelt til hlýðni þegar örorkulífeyrir er svo naumt skammtaður að hann dugir ekki fyrir brýnustu nauðsynjum eins og húsaskjóli, mat og lyfjum, nema fram yfir miðjan mánuð, þegar búið er að velta hverri krónu margsinnis fyrir sér,“ segir Þuríður Harpa Sigurðdardóttir, formaður ÖBÍ, í fréttatilkynningu um starfsemi Arnarholts.

Eins og fram kom í kvöldfréttum í gær var fólk sem dvaldi á vistheimilinu Arnarholti til 1971 haft í einangrun í litlum fangaklefa vikum saman og svelt til hlýðni. Í vitnaleiðslum yfir starfsólki lýsti það órannsökuðum andlátum vistmanna og vanrækslu sem leiddi til andláts. Nefnd sem skipuð var til að rannsaka málið komst að þeirri niðurstöðu að engra aðgerða væri þörf á heimilinu. 

„Öryrkjabandalagið harmar þá skelfilegu meðferð sem fatlað fólk var beitt á Arnarholti, og harmar að í  50 ár hafi þetta ofbeldi og valdníðsla verið þaggað. Það er því miður þannig að fréttir líkt og bárust okkur af illri meðferð fatlaðs og veiks fólks í Arnarholti eru hættar að koma á óvart,“ segir í tilkynningu frá Öryrkjabandalaginu.

„Alla tíð hefur verið litið á fatlað fólk sem byrði á þjóðfélaginu og því neitað um virðingu og mannréttindi. Það er því mikilvægt, nú þegar hneykslunaraldan ríður yfir þjóðfélagið, að við stöldrum við og skoðum hvað hefur breyst. Hvað hefur breyst í okkar huga, í afstöðu okkar gagnvart fötluðu og langveiku fólki? Eru fordómar okkar jafn miklir nú og þeir hafa verið? Nú er rétti tíminn fyrir hvern og einn að líta í eigin barm og velta því fyrir sér,“ segir þar enn fremur.

Þá sé mikilvægt að stjórnvöld lögfesti samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og tryggt sé að hægt sé að lifa af örorkulífeyri. „Við erum kannski ekki með stofnanavætt harðræði lengur, en kerfislægt harðræði er samt búið þeim sem fæðast fatlaðir, fatlast eða veikjast á lífsleiðinni,“ segir í tilkynningu sambandsins.