Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Öflug sýnataka á Norðurlandi eystra

11.11.2020 - 14:07
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Eitt smit greindist á Norðurlandi eystra í gær, grunur leikur á um annað og beðið staðfestingar úr sýnatöku. Báðir aðilar voru í sóttkví. 102 eru nú í einangrun á svæðinu og 164 í sóttkví. Tveir eru inniliggjandi með COVID-19 á Sjúkrahúsinu á Akureyri, einn á gjörgæslu en ekki í öndunarvél. Fjórir eru í einangrun á farsóttahúsi.

Jón Torfi Halldórsson, yfirlæknir á Heilsugæslunni á Akureyri segir ekki hafa verið slakað á í sýnatöku. Um 50 einkennasýni hafi verið tekin í gær og hátt í 30 sóttkvíarsýni. Sýnum fækki þegar smitum fer fækkandi, þegar 20 smit voru að greinast hafi verið tekin hátt í 250 einkennasýni á dag og um 150 sóttkvíarsýni. Prósentan af jákvæðum sýnum sé lág og fari lækkandi sem sé jákvætt. „Það eru góðar horfur, en það þarf ekki nema einn atburð til þess að snúa þessu við aftur,“ segir Jón Torfi.

Einfaldara og skilvirkara kerfi

Nú séu miklu fleiri sýni tekin heldur en í fyrstu bylgju faraldursins. Það hafi orðið stór breyting í haust þegar kerfið sem Íslensk erfðagreining og Landlæknisembættið noti við landamæraeftirlitið hafi verið aðlagað að sjúkraskrárkerfi heilsugæslunnar. Með því hafi allt utanumhald um sýnatökur og niðurstöður einfaldast til muna, orðið sjálfvirkara og sparað mikinn tíma fyrir heilbrigðisstarfsfólk, jafnvel allt að 80%. 

Þá sé afkastageta á rannsóknarstofum orðin meiri og ekki skortur á búnaði eins og í vetur. Í dag taki það 6-7 tíma að fá niðurstöður úr sýnatökum á Akureyri en ekki allt að þrjá daga eins og í fyrstu bylgjunni. Jón Torfi segir fólk almennt duglegt að mæta í sýnatöku og ákveðið í því að fá hana finni það fyrir einkennum.