Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Mjög mikilvægt að skoða Arnarholtsmál ofan í kjölinn

11.11.2020 - 18:01
Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson / RÚV
Það er mjög mikilvægt að mál Arnarholts verði skoðað ofan í kjölin. Ríkið er reiðubúið að aðstoða Reykjavíkurborg og miðla reynslu við rannsókn á vistheimilinu. Þetta segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.

„Eins og aðrir þá heyrði ég af þessu máli í fréttum í gær og fannst þetta bæði sláandi og óhugnanlegar lýsingar,“ segir Katrín.

Fársjúkt fólk sem dvaldi á vistheimilinu Arnarholti til 1971 var haft í einangrun í litlum fangaklefa vikum saman. Þetta kom fram í vitnaleiðslum yfir starfsfólki sem aldrei hafa komið fyrir sjónir almennings. Greint var frá þeim í fréttum í gær.

„Ég átti gott samtal við borgarstjóra í morgun. Arnarholt var auðvitað heimili rekið af borginni fyrir fullorðið fólk, eins og ég skil það. Ég veit að Reykjavíkurborg og borgarstjórn munu núna taka þetta mál til skoðunar. Ég held að það sé mjög mikilvægt að það verði skoðað ofan í kjölinn hvað þarna gekk á.“

Í vitnaleiðslunum sem greint var frá í gær lýsti starfsfólk órannsökuðum andlátum vistmanna og vanrækslu sem leiddi til andláts. Nefnd sem skipuð var til að rannsaka málið komst að þeirri niðurstöðu að engra aðgerða væri þörf á heimilinu. Þrátt fyrir það var ákveðið á lokuðum fundum borgarstjórnar að grípa til aðgerða.

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri í Reykjavík, segir lýsingar starfsfólksins vera skelfilegar og nístandi. Ráðist verður í skoðun á vistheimilum á vegum borgarinnar, jafnvel þó það geti reynst sársaukafullt.

Ekki tímabært að útvíkka frumvarp um sanngirnisbætur

Spurð hvort málefni Arnarholts verði tekið til skoðunar í forsætisráðuneytinu, segir Katrín: „Vistheimilanefnd sem hefur verið á vegum ríkisins hefur fyrst og fremst verið að skoða málefni barna sem voru vistuð á heimilum.“

„Raunar er ég núna með frumvarp í þinginu þar sem ætlunin er að ljúka uppgjöri sanngirnisbóta vegna þeirra sem dvöldu sem börn á heimilum, ýmist á vegum ríkisins eða einkaaðila, með leyfi ríkisins og með stoð í lögum. Þannig að þetta heyrir ekki beinlínis undir hennar verksvið,“ segir Katrín um vistheimilanefndina.

Spurð hvort það komi til greina að útvíkka frumvarp um sanngirnisbætur, sem nú er til meðferðar á Alþingi, svo það nái utan um Arnarholt, segir Katrín að það sé ekki tímabært að ræða það.

„Ég vænti þess að því [þingmálinu] verði bara lokið. En við munum þó eiga áframhaldandi samtal við borgina og fylgjast með því sem þau munu gera í þessu máli.“

„Og að sjálfsögðu erum við reiðubúin að miðla af allir þeirri þekkingu sem hefur skapast vegna þeirra rannsókna sem hafa staðið yfir síðan 2007, þegar vistheimilanefndin var stofnuð með lögum,“ segir Katrín.