Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Málarekstur ráðherra hvílir þungt á Hafdísi Helgu

11.11.2020 - 15:18
Mynd með færslu
 Mynd: Samsett mynd - RÚV
Fyrirtaka í máli Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, gegn Hafdísi Helgu Ólafsdóttur, skrifstofustjóra í forsætisráðuneytinu, fór fram í Héraðsdómi Reykjavíkur á öðrum tímanum í dag. Ekki var sáttagrundvöllur í málinu og ákveðið var að aðalmeðferð hæfist 27. janúar á næsta ári.

Lilja höfðaði mál gegn Hafdísi til að freista þess að fá þeim úrskurði kærunefndar jafnréttismála hnekkt um að ráðning Páls Magnússonar í embætti ráðuneytisstjóra menntamálaráðuneytisins hefði verið brot á jafnréttislögum. Lilja hefur sagt að úrskurðurinn skapi lagalega óvissu.

Úrskurðurinn féll í maí en embættið var auglýst í júní í fyrra og þrettán umsóknir bárust. Hæfisnefnd mat fjóra hæfasta og var Hafdís ekki þar á meðal. Í niðurstöðu kærunefndarinnar segir að verulega skorti á efnislegan rökstuðning menntamálaráðherra fyrir ráðningunni. Ekkert bendi til þess að Páll hafi staðið Hafdísi framar við ráðninguna og ekki hafi tekist að sýna fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ráðningunni.

Við fyrirtöku málsins í dag kom fram að búið er að leggja fram öll gögn. Þar á meðal eru skýrslutökur yfir þeim sem komu að ráðningunni.

Lögmaður Hafdísar Helgu, Áslaug Árnadóttir, segist ekki hafa búist við að Lilja myndi höfða mál til að fá úrskurðinum hnekkt. Þá sé málið bagalegt fyrir skjólstæðing hennar. „Það óneitanlega hvílir þungt á henni að hafa þetta yfir sér,“ segir Áslaug.