Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Ísland fjármagnar úttekt FAO um viðskiptahætti útgerða

Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
„Samkomulag hefur náðst við Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO) um að vinna úttekt á viðskiptaháttum útgerða sem stunda veiðar og eiga í viðskiptum með aflaheimildir í þróunarríkjum,“ segir í svari Kristjáns Þórs Júlíussonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, við fyrirspurn um úttekt á viðskiptahættum útgerða í þróunarlöndum.

Samkomulag um efni og fjármögnun

Hanna Katrín Friðriksson, þingmaður Viðreisnar, lagði fram fyrirspurn til ráðherrans um stöðuna á úttekt Alþjóðamatvælastofnunarinnar (FAO) á viðskiptaháttum útgerða sem stunda veiðar og eiga í viðskiptum með aflaheimildir, þar á meðal í þróunarlöndum. Í fyrirspurninni er bent á að ráðherrann hafi haft frumkvæði að úttektinni og að hún hafi verið meðal þeirra aðgerða sem ríkisstjórnin kynnti haustið 2019 til að auka traust á íslensku atvinnulífi. 

Í svari ráðherrans segir að íslensk stjórnvöld fjármagni vinnu FAO við gerð úttektarinnar, allavega fyrsta áfanga hennar. Samkomulag hafi náðst við stofnunina um efnisatriði og form verkefnisins. „Vegna COVID-19, og áhrifa faraldursins á starf FAO og forgangsröðun vinnu innan stofnunarinnar hafa orðið nokkrar tafir á frágangi formsatriða í þessu sambandi og hefur verið reynt að sýna því skilning en jafnframt reynt eftir fremsta megni að þrýsta á hraða afgreiðslu málsins,“ segir í svarinu. Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið hafi starfað náið með utanríkisráðuneytinu í þessu og vonandi verði samningur undirritaður vegna verkefnisins um miðjan nóvember.

Ísland var ekki aðili að yfirlýsingu um alþjóðlega glæpastarfsemi í fiskiðnaði

Hanna Katrín spurði jafnframt hvort Ísland hefði frá upphafi verið aðili að svokallaðri Kaupmannahafnaryfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna frá 2018 um skipulagða alþjóðlega glæpastarfsemi í fiskiðnaði og ef svo væri ekki, þá hvers vegna. Þá spurði hún hvort Ísland hefði síðar gerst aðili að yfirlýsingunni, hvenær og hvers vegna.

Í svarinu segir að ráðherra hafi ekki komist á ráðstefnu í Kaupmannahöfn um glæpastarfsemi í fiskveiðum árið 2018, sem Per Sandberg, þáverandi sjávarútvegsráðherra Noregs, hafi boðið Íslandi til þátttöku á. Íslendingar hafi tekið virkan þátt í undirbúningi ráðstefnunnar en ráðherra hafi ekki séð sér fært að mæta á hana vegna anna við önnur störf, en aðalfulltrúi Íslands þar hafi verið yfirmaður veiðieftirlitssviðs Fiskistofu. Á ráðstefnunni hafi sjávarútvegsráðherrar níu ríkja undirritað óbindandi yfirlýsingu. 

„Þar sem ráðherra var ekki á ráðstefnunni í Kaupmannahöfn undirritaði hann ekki yfirlýsinguna,“ segir í svarinu, en að yfirlýsingin hafi verið mjög áþekk samstarfsyfirlýsingu norrænu sjávarútvegsráðherranna frá 2017. Í framhaldi af ráðstefnunni hafi svo nokkur ríki lýst yfir stuðningi við yfirlýsinguna og að Ísland hafi gerst aðili að henni með ráðherrabréfi þann 27. nóvember árið 2019.