Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Hvetja Akureyringa til að velja annað en nagladekk

11.11.2020 - 14:16
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Akureyrarbær hvetur bíleigendur til að velja aðra kosti en nagladekk þegar þeir skipta yfir á vetrardekkin. Undanfarin ár hafi um 75% bíleigenda valið að aka um á nagladekkjum.

„Nagladekkin eiga sinn þátt í svifryki, auk þess að valda hávaða og slíta malbiki hraðar en önnur dekk með tilheyrandi auknum viðhaldskostnaði,“ segir í grein á vef Akureyrarbæjar þar sem íbúarnir eru hvattir til að huga að umhverfisvænum kostum í umferðinni í vetur.

Þrír af hverjum fjórum á nagladekkjum

Búast megi við því að margir bíleigendur hugi að því að skipta yfir á vetrardekkin nú þegar nóvember er genginn í garð. Þar vill Akureyrarbær hvetja þá, sem mögulega geta, til þess að velja vistvæna kosti. Erfiðlega hafi gengið að draga úr notkun nagladekkja, en síðustu ár hafi að jafnaði um þrír af hverjum fjórum bifreiðaeigendum á Akureyri ekið á negldum hjólbörðum.

Frekar að velja aðrar dekkjategundir 

„Umferðartalning á götum bæjarins 24. október leiddi í ljós að um fjórðungur ökutækja hafi verið kominn á nagladekk, jafnvel þótt aðstæður hafi ekki gefið tilefni til þess,“ segir á akureyri.is. „Ýmsar aðrar tegundir vetrarhjólbarða eru í boði sem hafa mismunandi áhrif á umhverfið og eru flestir sammála um að gæði þeirra hafi aukist mikið á undanförnum árum. Má þar nefna loftbóludekk, harðskeljadekk, harðkornadekk og heilsársdekk með djúpu mynstri.“

Ýmsar leiðir færar til að draga úr svifryki

Þá segir að Akureyrarbær leggi áherslu á að draga úr svifryki og mengun sem af því stafar, til dæmis með því að sópa og þvo götur í ríkari mæli en áður og bjóða upp á gjaldfrjálsar almenningssamgöngur. „Íbúar eru beðnir um að meta hvort þeir geti lagt sitt af mörkum, ýmist með því að draga úr notkun einkabílsins eða velja aðrar tegundir hjólbarða en nagladekk og stuðla þannig að bættum loftgæðum og minni hávaða á Akureyri.“