Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Hefur fengið ótal vinabeiðnir síðan leikurinn kom út

Mynd: Gunnar Hansson / RÚV

Hefur fengið ótal vinabeiðnir síðan leikurinn kom út

11.11.2020 - 12:46

Höfundar

„Ég hafði sjálfur ekki spilað tölvuleiki síðan árið 2000 svo ég fékk mér PlayStation-tölvu og keypti mér leikinn til að skilja eitthvað hvað ég var að fara út í,“ segir Guðmundur Ingi Þorvaldsson leikari sem fer með eitt aðalhlutverkanna í nýjum geysivinsælum tölvuleik. Leikurinn nefnist Assassins Creed Valhalla og kom út í vikunni.

Síðasti leikur í þessari bráðvinsælu tölvuleikjaseríu kom út fyr­ir tveim­ur árum og hann nefnist Assass­in's Creed Odyss­ey. Nýja leiksins hafði verið beðið með mikilli eftirvæntingu.

Tökur og æfingar hófust síðasta sumar í Kanada og þeim lauk í mars á þessu ári. Reynslan var nokkuð frábrugðin leikhús- og kvikmyndaleik sem Guðmundur er vanur. „Við fórum í smokkþröngan svartan galla með alls konar sjálflýsandi röndum og pínulitlum ljósgrænum boltum,“ rifjar hann upp.

Þarf að vera smá Shakespeare í þessu

Leikið var í risastórum sal með dýnum og púðum en svo var leikmyndinni sjálfri varpað á risastóran skjá. „Við þessi fjögur sem vorum þarna mest, ekkert okkar hafði gert þetta áður og við vorum bara: Hvað erum við að gera?“ rifjar Guðmundur upp. „Svo um leið og maður fattar þetta þá er það svo gaman. Og vegna þess að þetta eru teiknaðir tölvukarakterar þarf að vera með smá Shakespeare í þessu.“

Eins og að skrifa tuttugu bíómyndir í einu

Leikurinn hafði verið í vinnslu í þrjú og hálft ár áður en leikararnir voru kallaðir inn og er því mikil vinna á bak hann. „Nú skil ég af hverju tölvuleikir eru svona dýrir. Þetta minnti mann fyrst á eins og maður ímyndar sér kínverskar sweat shops. Það var hæð eftir hæð af forriturum svo langt sem augað eygir.“ Og á meðan til dæmis kvikmyndahandrit er oftast frá 90-130 blaðsíður er handritið að leik sem þessum um 1300 síður. „Þetta er eins og þú sért að skrifa tuttugu bíómyndir í einu,“ segir Guðmundur.

Spilari ver að minnsta kosti 80 klukkutstundum með karakterunum

Skaparar leiksins segja að það hefði verið hægt að gera þetta án leikaranna sjálfra en að með þátttöku þeirra verði karakterarnir raunsærri og heimurinn öðlast frekari dýpt. Það veitir ekki af því að karakterarnir séu þolanlegir því það tekur mjög góðan spilara um 80-100 klukkutíma að klára leikinn og þurfa þeir því að verja miklum tíma með þeim.

Sjálfur hafði Guðmundur ekki spilað tölvuleiki síðan árið 2000 en til að skilja hvað hann væri að fara út í þegar hann hreppti hlutverkið keypti hann sé PlayStation-tölvu og prufaði að spila fyrri leikinn með stráknum sínum. Hann mætti því vel æfður til leiks í tökur og þekkti sögusviðið.

Sístækkandi aðdáendahópur

Og leikurinn hefur slegið í gegn. Þegar kitlan kom út fékk hún strax 100 milljón áhorf fyrsta sólarhringinn og það má rétt ímynda sér hve margir hafa þegar spilað hann. Margir vilja augljóslega ólmir vita meira um víkinginn sem fer með hlutverk Sigurds, Guðmundur hefur sannarlega fundið fyrir því síðustu daga. „Ég veit ekki hvað ég hef fengið margar vinabeiðnir og follow á Instagram síðan leikurinn kom út,“ segir hann.

Rætt var við Guðmund Inga Þorvaldsson í Morgunútvarpinu á Rás 2.

Tengdar fréttir

Leiklist

Er orðinn að öllu því sem hann þoldi ekki