Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Einn af hverjum fjórum myndi kjósa Sjálfstæðisflokk

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Fylgi Sjálfstæðisflokks mælist 25%, fylgi Samfylkingarinnar 16,1% og fylgi Pírata mælist 14,3%.Þetta eru einu flokkarnir sem mælast með meira en 10% fylgi. Þetta sýna niðurstöður fylgiskönnunar MMR.

Fylgi þessara þriggja flokka hefur aukist frá síðustu könnun. Sjálfstæðisflokkurinn hefur aukið fylgi sitt um þrjú prósentustig, fylgi Samfylkingar hefur aukist um eitt og hálft prósentustig og fylgisaukning Pírata nemur tæpu prósenti.

Framsókn er sá flokkur sem mælist með fjórða mesta fylgið, 9,9% sem er svipað og síðast, síðan kemur Miðflokkurinn með 9,1% og hefur fylgi flokksins minnkað um tvö og hálft prósentustig frá síðustu könnun.

Viðreisn er með 8,4%,  sem er tæpum tveimur prósentustigum minna en í síðustu könnun, Vinstri græn mælast með 7,5% fylgi og er það tæpu prósentustigi minna en síðast þegar MMR gerði könnun.

Sósíalistaflokkur Íslands mælist með 4% sem er aðeins minna en í síðustu könnun og Flokkur fólksins með 3,9% sem er nánast engin breyting.

Stuðningur við aðra flokka mældist samtals 1,1%.

Á vef MMR segir að þegar gögnin séu skoðuð aftur í tímann veki athygli að fylgi Sjálfstæðisflokksins sveiflist í gagnstæða átt við fylgi Miðflokksins, þ.e. þegar fylgi annars flokksins aukist, minnki fylgi hins að sama skapi. Þetta er sagt benda til þess að nokkur barátta sé á milli flokkanna um atkvæði sömu kjósendanna.

Könnunin var gerð í október og þar var fólk spurt hvaða flokk það myndi kjósa yrði kosið til Alþingis í dag.

 
annalth's picture
Anna Lilja Þórisdóttir