Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Búið að tryggja aðgengi Íslands að Pfizer-bóluefninu

11.11.2020 - 12:29
epa08810222 A person walks past the headquarters of the pharmaceutical company Pfizer in New York, New York, USA, 09 November 2020. Pfizer announced earlier on the same day that a coronavirus vaccine it was developing with the German drugmaker BioNTech was showing a 90 percent effectiveness in preventing COVID-19 earlier trials.  EPA-EFE/JUSTIN LANE
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins undirritaði í dag samning við lyfjafyrirtækið Pfizer um kaup á 200 milljónum skammta af bóluefni fyrirtækisins við COVID-19 með möguleika á 100 milljón skömmtum til viðbótar. Íslandi er tryggður sami aðgangur að bóluefnum sem Evrópusambandið semur um og aðildarríkjum sambandsins. Þetta kemur fram í tilkynningu frá heilbrigðisráðuneytinu.

Fréttir af bóluefninu urðu til þess að verða á hlutabréfamörkuðum ruku upp enda telja flestir vísindamenn að kórónuveirufaraldrinum ljúki ekki fyrr en bóluefni er komið á markað.  

Pfizer er ekki í hópi þeirra lyfjafyrirtækja sem höfðu heitið því að hagnast ekki á bóluefna-framleiðslu. Talið er að hagnaður fyrirtækisins af bóluefninu geti numið 13 milljörðum dollara en það sótti meðal annars ekki um fé frá Bandaríkjastjórn. Gert er ráð fyrir að skammturinn, sem er tvær sprautur, verði seldur á 39 dollara í Bandaríkjunum eða 5.500 krónur. 

Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, sagði í gær að fréttir af niðurstöðum Pfizer væru ánægjuleg tíðind. „„Auðvitað eiga yfirvöld í Evrópu, þ.e. Lyfjastofnun Evrópu eftir að fara yfir þetta og skoða þetta betur en þetta er bara mjög ánægjulegt og ég vona að aðrir bóluefnaframleiðendur geti komið með álíka fréttir fljótlega,“ segir Þórólfur en bóluefnið skilaði góðum árangri í 90 prósentum tilfella. 

Áætlað er að Íslendingar þurfi að kaupa 500 til 600 þúsund skammta af bóluefni. Ísland mun kaupa bóluefni á grundvelli samninga Evrópusambandsins við lyfjaframleiðendur og Svíþjóð hefur milligöngu um að framselja Íslendingum og Norðmönnum efni.