
Börnum bjargað úr klóm níðinga
Justine Gough, næstráðandi í áströlsku alríkislögreglunni, sagði við fréttamenn að ekkert barn ætti að þurfa að þola ofbeldi eða misnotkun af hálfu þeirra sem það treysti, ættingjum, umönnunaraðilum eða íþróttaþjálfurum, en sú hefði verið raunin í þessum tilfellum.
Þolendurnir, börn á aldrinum sextán mánaða til fimmtán ára, sættu bæði kynferðisofbeldi og annars konar ofbeldi. Mennirnir fjórtán sem handteknir voru eiga yfir höfði sér fjölda ákæra.
Eitt alvarlegasta málið snýr að manni sem starfaði við leikskóla í Nýja Suður-Wales, sem misnotaði stöðu sína og beitti börn í sinni umsjá ofbeldi.
Það var bandaríska lögreglan sem kom þeirri áströlsku á sporið, en þrír hafa verið handteknir vegna málsins í Bandaríkjunum og tekist hefur að hafa uppi á öðrum níðingum í Evrópu, Asíu, Kanada og á Nýja-Sjálandi.
Í síðasta mánuði var greint frá annarri barnaníðsrannsókn í Ástralíu þar sem fjörutíu og fjórir voru handteknir.