Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Bannað að heimsækja Arnarholt eftir svarta skýrslu

Mynd: Guðmundur Bergkvist / RÚV
Sjálfboðaliðahreyfing ungs fólks á sviði geðheilbrigðismála skrifaði svarta skýrslu um aðbúnað í Arnarholti árið 1969. Skýrslan barst stjórnendum í Arnarholti, sem í kjölfarið bönnuðu hópnum að heimsækja vistheimilið. Skýrslan var aldrei gerð opinber.

Starfsfólk á vistheimilinu Arnarholti lýsti ómannúðlegri meðferð á heimilisfólki í ítarlegum vitnaleiðslum fyrir tæpri hálfri öld. Nefnd sem skipuð var til að rannsaka málið komst að þeirri niðurstöðu að engra aðgerða væri þörf, en borgarstjórn ákvað samt á lokuðum fundum að geðdeild Borgarspítalans skyldi taka heimilið yfir. Greint var frá því sem fram kom í vitnaleiðslunum í fréttum í gær.

Sveinn Rúnar Hauksson læknir var á þessum tíma í forsvari fyrir hóp sem kallaðist Tenglar, sem var sjálfboðaliðahreyfing ungs fólks á sviði geðheilbrigðismála. Hreyfingin gerði kröfu um mannréttindi og að geðsjúkum væri sýnd virðing eins og öðrum. Hópurinn fór vikulega í Arnarholt, ræddi við heimilisfólk og kannaði aðstæður.

„Ég heyrði sjónvarpsfréttir í gærkvöldi. Mér brá pínulítið en hvert einasta orð sem þar var sagt getum við Tenglarnir staðfest. Og ég byrjaði á að fara út í bílskúr og fara í gömlu kassana og möppurnar.“

Þar fann Sveinn Rúnar meðal annars skýrslu sem Tenglar skrifuðu um aðbúnað í Arnarholti árið 1969.

Arnarholt er geymsla fyrir margbreytilegan hóp sjúklinga, allt frá vangefnum til geðsjúkra á aldrinum frá 14 til 80. Fólki er komið fyrir í gömlu gripahúsi sem breytt hefur verið í geðsjúkrahæli,

segir meðal annars í skýrslunni. Þar segir ennfremur:

Nefna má að í notkun er sella, einangrunarklefi. Rimlar eru fyrir glugga klefans og þar er þrælfastur járnbeddi með ólum. Sjúklingum er ætlað að gera þarfir sínar á gólfið, en á því er niðurrennsli. 
 

Skoðanir á skjön

Sveinn Rúnar segir að skýrslan hafi aðeins verið hugsuð til þess að nota á ráðstefnu sem Tenglar stóðu fyrir. 

„Það gerðist hins vegar að þessi skýrsla okkar um Arnarholt fór til forstöðumannsins eða yfirhjúkrunarfræðingsins á staðnum. Og það varð til þess að hann gerði tilraun til þess að banna okkur að koma uppeftir. Við báðum um fund með honum og hittum hann að máli. Og niðurstaðan af honum varð sú að okkar skoðanir gerðu það að verkum að hann yrði að biðja okkur um að halda okkur í burtu,“ segir Sveinn Rúnar.

„Og niðurstaða okkar eins og hún kom fram nokkru síðar í bréfi til heilbrigðisráðs borgarinnar var að það bæri að loka Arnarholti.“

En þið gerðuð þessa skýrslu aldrei opinbera?

„Nei við gerðum hana aldrei opinbera í sjálfu sér. En einhvern veginn komst hún í umræðuna hjá borginni.“

En hvers vegna gerðuð þið skýrsluna aldrei opinbera? Hefði ekki verið ástæða til þess að flagga því sem þarna átti sér stað?

„Ég held að ástæðan hafi verið sú að við fórum svo varlega. Við vorum svo ábyrg í okkar eðli gagnvart vinum okkar, gagnvart vistfólkinu í Arnarholti í þessu tilviki, að við vildum ekki hætta á að við yrðum alveg útilokuð frá því að heimsækja þá og halda áfram okkar starfi. Við gátum ekki bara skilið þau eftir af því að við höfðum þörf fyrir að koma gagnrýni okkar á framfæri í fjölmiðlum. En auðvitað er þetta umdeilanlegt, hvað við hefðum átt að gera.“

En þið létuð heilbrigðismálaráð Reykjavíkur vita?

„Við gerðum það. Og þannig gerðum við þetta opinbert,“ segir Sveinn Rúnar.

Mynd: Eggert Þór Jónsson / RÚV
Hér má sjá lengri útgáfu af viðtalinu við Svein Rúnar.