Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Ætla að skoða Arnarholt: „Alveg skelfilegar lýsingar“

Mynd: Eggert Þór Jónsson / RÚV
Lýsingar starfsfólks í Arnarholti eru skelfilegar og nístandi, segir Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri í Reykjavík. Hann segir að farið verði yfir málið og nauðsynlegt sé að kanna hvort rannsaka þurfi aðbúnað á fleiri vistheimilum. Ráðast verði í slíka skoðun, jafnvel þótt það geti reynst sársaukafullt.

Fársjúkt fólk sem dvaldi á vistheimilinu Arnarholti til 1971 var haft í einangrun í litlum fangaklefa vikum saman. Þetta kom fram í vitnaleiðslum yfir starfsfólki sem aldrei hafa komið fyrir sjónir almennings. Greint var frá þeim í fréttum í gær. Þar lýsti starfsfólk órannsökuðum andlátum vistmanna og vanrækslu sem leiddi til andláts. Nefnd sem skipuð var til að rannsaka málið komst að þeirri niðurstöðu að engra aðgerða væri þörf á heimilinu. Þrátt fyrir það var ákveðið á lokuðum fundum borgarstjórnar að grípa til aðgerða.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segist ekki hafa vitað af málinu fyrr en hann sá fjallað um það í fréttum í gær.

„Þetta eru auðvitað alveg skelfilegar lýsingar. Ég held að það sé ekki hægt að koma neinum öðrum orðum að því. Og í raun alveg nístandi,“ segir Dagur.

Hollt að gera upp mál

Dagur segir að það geti verið ástæður fyrir því að leynd hvíldi yfir málinu allan þennan tíma.

„Það getur að vissu leyti verið eðlilegt út frá persónuvernd og slíkum viðhorfum sem við þekkjum í samtímanum. En það skiptir auðvitað líka mjög miklu máli þegar hlutir eru ekki eins og við viljum hafa þá að það sé varpað ljósi á þá og að þeir séu færðir til betri vegar. Og mín skoðun er sú að samfélaginu getur verið mjög hollt að gera upp mál, jafnvel gömul mál, til þess að spegla þau í samtímanum og til að læra af þeim, jafnvel þótt það geti verið mjög sársaukafullt.“

Dagur segir að meðal annars þurfi að skoða hvers vegna nefnd læknanna þriggja komst að þeirri niðurstöðu að ekkert þyrfti að gera. 

„Ég reikna með að við förum með málið í borgarráði. En það þarf líka að fara yfir þessi gögn og það þarf að velta fyrir sér hvort það séu fleiri heimili sem þurfi að fjalla um, og hvers konar nefnd eða vettvangur er best til þess fallinn að leggja grunn að upplýstri umræðu um þetta,“ segir Dagur.

Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður velferðarráðs Reykjavíkur, sagði í samtali við fréttastofu í morgun að hún liti þetta mál mjög alvarlegum augum. Málið verði skoðað innan borgarkerfisins, aðeins þurfi að finna út úr því hvaða farvegur sé réttur.

johann's picture
Jóhann Bjarni Kolbeinsson
Fréttastofa RÚV