Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Ætla að krefjast rannsóknar: „Svakalegar upplýsingar“

Mynd: Guðmundur Bergkvist / RÚV
Vitnaleiðslur starfsfólks í Arnarholti verða nýttar til þess að krefjast þess að farið verði í allsherjarrannsókn á vistun fatlaðs fólks hér á landi, segir formaður Þroskahjálpar. Hún segir að upplýsingarnar sem komi fram í vitnaleiðslunum séu svakalegar, en fullyrðir að það sem átti sér stað í Arnarholti hafi einnig átt sér stað á öðrum vistheimilum. Gögn málsins fundust í skjalasafni Reykjavíkurborgar í dag, en trúnaður ríkir um þau í heila öld.

Starfsfólk á vistheimilinu Arnarholti á árunum fyrir 1971 lýsti frelsissviptingum, órannsökuðum andlátum vistmanna og vanrækslu sem leiddi til andláts í ítarlegum vitnaleiðslum, sem trúnaður hefur ríkt um í næstum hálfa öld. Greint var frá vitnaleiðslunum í fréttum í gær. Nefnd sem skipuð var til að rannsaka málið komst að þeirri niðurstöðu að engra aðgerða væri þörf á heimilinu, en þrátt fyrir það var ákveðið á lokuðum fundum borgarstjórnar að grípa til aðgerða.

„Okkur hjá Þroskahjálp er auðvitað mjög brugðið,“ segir Bryndís Snæbjörnsdóttir, formaður Landssamtakanna Þroskahjálp. „Ég veit eiginlega ekki hvað ég á að segja, þetta eru svo svakalegar upplýsingar sem koma þarna fram. En að sumu leyti koma þær ekki á óvart því við höfum auðvitað verið að kalla eftir því að aðstæður fullorðinna sem voru vistaðir verði kannaðar.“

Þar vísar Bryndís til þess að á síðustu árum hafa heimili þar sem börn voru vistuð verið rannsökuð, og þeim verið greiddar bætur. Ekki hefur hins vegar farið fram sérstök rannsókn á aðbúnaði fólks sem vistað var fullorðið á slíkum heimilum, líkt og í Arnarholti.

Ekki einsdæmi

Bryndís segir að margt varðandi málefni Arnarholts sé sláandi.

„Það slær mann að sjá hvernig málið er meðhöndlað af hálfu yfirvalda, þegar það kemur fram, að þessir þrír læknar skuli skila þannig skýrslu að ekki þyki ástæða til að gera neitt. Auðvitað er ánægjulegt að sjá að borgarstjórn hafi fallist á að ræða þetta fyrir luktum dyrum, en sjokkerandi að sjá hvað kom þar fram, og sjokkerandi að sjá að það hafi þá ekki með einhverjum hætti verið gert opinbert og unnið með það áfram. Vegna þess að það er full ástæða til að ætla að í Arnarholti, þar sem farið var svona illa með fólk, að það hafi ekki verið einsdæmi. Og það kemur mjög vel fram í Kópavogsskýrslunni að það er alveg ástæða til að ætla að sambærilegir hlutir hafi átt sér stað á öllum þeim stöðum þar sem fullorðið fatlað fólk var vistað.“

Mynd: Guðmundur Bergkvist / RÚV
Hér má sjá lengri útgáfu af viðtalinu við Bryndísi Snæbjörnsdóttur.

Nú eru einhver 50 ár frá þessum viðburðum - er þetta eitthvað sem á erindi í dag?

„Já þetta á svo sannarlega erindi vegna þess að í fyrsta lagi þurfum við að geta gert upp fortíðina, til að geta horft til framtíðar. Og það er mikilvægt, hvort sem einhverjir eru enn eftirlifandi af þeim sem þarna bjuggu, eða gagnvart aðstandendum þeirra sem þarna bjuggu, að þetta sé kannað ofan í kjölinn. Og að við nýtum þessa reynslu til þess að gera betur í dag. En við hjá Landssamtökunum Þroskahjálp höfum margítrekað bent stjórnvöldum á að það er ekki nógu gott eftirlitskerfi með þjónustu fatlaðs fólks enn þann dag í dag.“

Vissi Þroskahjálp af þeim starfsháttum sem voru viðhafðir í Arnarholti?

„Við vissum ekki af þeim með formlegum hætti en við höfum auðvitað fengið ábendingar frá ýmsum stöðum þar sem fullorðið fólk var vistað. Og það er auðvitað ástæðan fyrir því að við höfum lagt svona mikla áherslu á að það sé ekki eingöngu klárað að skoða vistun fatlaðra barna og vistun barna almennt, heldur sé fullorðið fólk í viðkvæmri stöðu, sem gat ekki varið sig, að aðstæður þeirra séu skoðaðar og að við gerum upp fortíðina.“

Í nálægri fortíð

Er Þroskahjálp komin með þessi gögn, þessar vitnaleiðslur?

„Já við höfum þetta undir höndum. Þetta er náttúrulega töluvert mikið magn af gögnum og margt sláandi sem kemur þarna fram. Og við munum auðvitað nýta þessar upplýsingar til þess að halda áfram að knýja á um að það verði farið í ítarlega skoðun á vistun fatlaðs fólks, bæði á vegum ríkisins og sveitarfélaganna. Og það er kannski ástæða til þess að koma því að, að við höfum alveg ástæðu til þess að ætla að það sem þarna kemur fram, frelsissviptingar og annað, að það hafi átt sér stað í nálægri fortíð okkar, og jafnvel í dag. Við vitum ekkert um það og það þarf auðvitað að kanna þetta sérstaklega. En það er mjög lítið um frumkvæðisrannsóknir og eftirlit með þjónustu við fatlað fólk.“

Þannig að ef svona atburðir áttu sér stað þarna, þá er líklegt að þeir hafi líka átt sér stað á öðrum heimilum?

„Mjög líklegt. Og ég get nánast fullyrt að það hafi verið þannig. Og við sjáum það mjög vel á Kópavogsskýrslunni. Við erum líka að fá upplýsingar erlendis frá um að það séu hræðilegir hlutir að gerast í dag, þar sem verið er að fara illa með fatlað fólk sem ekki getur borið hönd fyrir höfuð sér, varið sig eða kallað eftir aðstoð. Og við höfum enga ástæðu til að ætla annað en að sama hætta sé fyrir hendi hjá okkur í dag.“

Hefði borgarstjórn á þessum tíma átt að fara með þetta mál lengra, og ræða það opinberlega?

„Að sjálfsögðu. Hins vegar veit maður að tíðarandinn var allur annar fyrir 50 árum og það var alveg ofboðslega sterkt samtryggingarkerfi þar sem menn voru að verja hvern annan, sérstaklega í efri lögum samfélagsins. Þannig að það kemur mér ekki á óvart að þessi leyndarhyggja hafi verið yfir þessu. En í dag sættum við okkur ekki við svona leyndarhyggju,“ segir Bryndís.

100 ára trúnaður

Þær upplýsingar fengust frá Borgarskjalasafni Reykjavíkur að vitnaleiðslurnar séu varðveittar í skjalasafni heilbrigðismálaráðs borgarinnar í dag. Samkvæmt lögum má ekki veita aðgang að þeim nema afmá allar persónugreinanlegar upplýsingar þar sem sjúkraskrár og heilsufarsupplýsingar einstaklinga eru bundnar 100 ára trúnaði.

Helga Vala Helgadóttir, formaður velferðarnefndar Alþingis, segir líklegt að málið verði tekið upp á næsta fundi nefndarinnar, en byrjað verði á því að kalla eftir upplýsingum. Hún segir málið sjokkerandi, og að nauðsynlegt sé að komast að því hvers vegna leynd hefur hvílt yfir því í hálfa öld.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði í dag að mikilvægt væri að skoða málið ofan í kjölinn. Dagur B. Eggertsson sagði að málið verði skoðað innan borgarkerfisins.

Fréttin hefur verið uppfærð.