Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„Vonbrigði að við skulum ekki vera búin að ná lengra“

10.11.2020 - 18:06
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Samsett mynd
Ekkert útlit er fyrir samkomulag milli formanna þingflokkanna um breytingartillögur Katrínar Jakobsdóttur, forsætisráðherra, á stjórnarskránni eftir formannafund í dag þar sem frumvörpin voru til umræðu. Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, lýsti vonbrigðum eftir fundinn.

Katrín hyggst leggja fyrir fjögur frumvörp um breytingar á stjórnarskrárákvæðum sem lúta að auðlindum,  náttúruvernd, forseta og framkvæmdavaldi og ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslur og þjóðarfrumkvæði í þessum mánuði. Hún leggur frumvörpin fram sem þingmaður, ekki forsætisráðherra.

„Það eru ákveðin vonbrigði að við skulum ekki vera búin að ná lengra,“ sagði Inga Sæland, formaður Flokks fólksins eftir fundinn. „Það er ákveðið mál þarna sem við munum hiklaust styðja en ekki auðlindaákvæðið. Ég vil að stjórnarskráin sé skýr, og að í auðlindaákvæðinu að sé talað um sanngjarnt eða eðlilegt gjald er ekki hægt. Það er síðasta sort. Við viljum fullt verð og svo er það bara löggjafans að tryggja það.“

Inga segir mikla vinnu hafa farið í vinnu við stjórnarskrárbreytingartillögurnar sem og að mikill vilji væri til þess að ná breytingum í gegn en það dugi ekki til. Hún vonast samt sem áður til þess að ný stjórnarskrá taki gildi í landinu sem fyrst.

Ekki treystandi til að setja umgjörð um sitt eigið vald

Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, segir ekki unnt að styðja við frumvörp Katrínar eins og þau eru í dag. Píratar hafi gert skýra kröfu um að leggja þyrfti frumvarp stjórnlagaráðs frá 2012 til grundvallar breytingunum. Það hafi ekki verið gert nema að hluta til. „Fyrir vikið er orðið ljóst að stjórnmálamönnum og ráðherrum er ekki treystandi til að setja umgjörð um sitt eigið vald,“ sagði Helgi Hrafn eftir fundinn.

Helgi Hrafn var ekki hlynntur ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslur. „Þar eru settir inn þröskuldar sem eru ólýðræðislegir í eðli sínu.“ Þá er auðlindaákvæðið að hans mati orðað óþarflega vítt og ekki er nægilega tryggt hvað það þýði að auðlindir séu í þjóðareigu. „Það á að vera skýrt,“ sagði hann.

„Þetta er pattstaða sem leysist vonandi í næstu kosningum en þetta er ekki leiðin,“ sagði Helgi jafnframt um fundarhöld formannanna um tillögurnar. „Það þarf meiri aðkomu þjóðarinnar, meira lýðræðislegt umboð og það þarf að virða niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar.“ 

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, sagði í liðnum mánuði að einna mest vinna hafi farið í auðlindaákvæðið og orðið tímabært að ná sátt um það. „En það er samt sem áður einmitt dæmi um ákvæði sem að mikill ágreiningur virðist ennþá vera um,“ sagði Bjarni.

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, vildi ekki tjá afstöðu sína til tillaganna að svo stöddu og vildi fá tækifæri til að ræða að fyrst við flokksmenn sína. Ekki náðist í aðra flokksformenn við vinnslu fréttarinnar.