Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Stjórnvöld og samfélagið allt setji geðheilsu í forgang

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Bragi Valgeirsson
Undirskriftasöfnun Geðhjálpar í tengslum við átakið 39 lauk á sunnudag og forsvarsmenn Geðhjálpar vonast til að geta afhent Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra undirskriftirnar 30.092 á morgun. Grímur Atlason, framkvæmdastjóri Geðhjálpar, segir í samtali við fréttastofu að með átakinu hafi félagið viljað hvetja stjórnvöld og samfélagið allt til að setja geðheilsu í forgang og leggja áherslu á geðvernd og fyrirbyggjandi aðgerðir.  

Vilja meðal annars auka fræðslu um uppeldi

„Þetta eru níu aðgerðir sem við bendum á og leggjum áherslu á að verði ráðist í,“ segir hann. Geðhjálp skorar til dæmis á stjórnvöld að gera heildarúttekt á umfangi og framkvæmd geðheilbrigðisþjónustu á Íslandi, efla heilsugæsluna sem fyrsta viðkomustað, gera þjónustuna þverfaglegri og stórauka stuðning og fræðslu fyrir foreldra um uppeldi barna, til dæmis sem hluta af mæðravernd og ungbarnaeftirliti. 

Meðal aðgerðanna sem Geðhjálp hvetur til er uppbygging á nýju húsnæði fyrir geðsvið Landspítalans. „Þá sjáum við ekki bara fyrir okkur nýtt húsnæði heldur nýja hugmyndafræði og innihald. Þeir sem stýra geðsviði eru sammála okkur þar. Eins og staðan er núna erum við með mjög einsleita nálgun þar,“ segir hann. 

39 sjálfsvíg á síðasta ári en útlit fyrir fjölgun í ár 

Átakið ber heitið 39 sem er vísun í fjölda sjálfsvíga á Íslandi á síðasta ári. Grímur segir að 39 sé einnig meðalfjöldi sjálfsvíga síðustu tíu árin. „Við þurfum að horfast í augu við þessa tölu og átta okkur á að hún er einn af fjölmörgum mælikvörðum á geðheilsu þjóðarinnar. Aðrir mælikvarðar eru til dæmis örorka, enda eru 40 prósent öryrkja á bótum vegna geðheilsu, svo er það til dæmis líðan barna og greiningar,“ segir hann. 

Fjöldi sjálfsvíga á ári hefur ekki sveiflast mikið síðustu ár, enda er fjöldinn á síðasta ári sá sami og meðalfjöldi síðustu tíu árin. Hins vegar segir Grímur útlit fyrir að sjálfsvíg verði mun fleiri á þessu ári. „Staðfestar upplýsingar um dánarmeinaskrá koma ekki strax en lögreglan sagði í ágúst að andlát sem lögreglan flokkaði sem sjálfsvíg væru orðin 30 í lok ágúst. Í lok ágúst í fyrra voru þau 18,“ segir Grímur. 

Vantar aðgerðir til að sporna við brottfalli úr skólum 

Grímur segist hafa áhyggjur af því að fjarkennsla ýti undir brottfall nemenda úr framhaldsskólum. „Ég sé engar aðgerðir til að sporna við því. Stjórnvöld hafa boðið upp á ótal mótvægisaðgerðir til fyrirtækja en ekki til þessa hóps,“ segir hann og minnir á að atvinnuleysi sé sögulega hátt, sérstaklega meðal ungs fólks.   

„Það er mjög alvarlegt þegar krakkar, 16-19 ára, detta úr virkni. Það getur haft mikil áhrif á krakka að vera mánuðum saman í fjarnámi, þetta er langur tími. Ekki síst fyrir þá krakka sem hafa kannski átt erfitt í grunnskóla,“ segir hann og bendir á að honum þyki mikilvægt að krakkar á fyrsta og öðru ári í framhaldsskóla fái að mæta í skólann upp að einhverju marki.  

30 prósent fjölgun fólks undir nítján ára á fjárhagsaðstoð 

Grímur bendir á verulega hafi fjölgað í hópi þeirra sem eru undir nítján ára og sækja um fjárhagsaðstoð til sveitarfélaga. „Þeim hefur fjölgað um 30 prósent frá því í fyrra. Það þarf að ráðast í aðgerðir fyrir þennan hóp. Þetta eru örorkutölur framtíðarinnar svo við verðum að finna þessum hópi virkni. Eigum við til dæmis að breyta Hótel Sögu í nýsköpunarhús þar sem ungt fólk getur unnið að einhverju skapandi?,“ segir hann og hlær.  

Leggja til að Geðráð verði sett á laggirnar 

„Við leggjum til að stjórnvöld stofni Geðráð. Það væri stefnuráðgefandi og myndi halda utan um tölfræði um geðheilsu og þróunina. Ríkisstjórnin er með efnahagsráð og við teljum Geðráð jafnvel enn mikilvægara. Þá væri hægt að setja allar upplýsingar til að vinna út frá inn á stjórnborð Geðráðs og fylgjast með þróuninni,“ segir Grímur.  

 

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV