Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Segir að rannsaka beri innflutning kjöts og mjólkurvara

Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
„Svona mál á auðvitað að fara beint til lögreglu. Þetta er lögreglumál og saksóknara,“ sagði Guðni Ágústsson fyrrverandi landbúnaðarráðherra um innflutning á kjöti og mjólkurvörum. Hann var í viðtali í morgunútvarpi Rásar tvö í morgun.

Guðni segir tilefni til rannsóknar vegna innflutnings, eða „smygli“  á kjöti og mjólkurvörum til landsins. Hann kveður Evrópusambandið hafa lýst furðu á hvernig málum er komið hér á landi.

„Evrópusambandið vill ekki að svona sé brotið á samningum sem gerðir eru við það,“ segir Guðni. „Þetta er brot á samningum og brot á lögum.“

Hann skrifaði nýverið opið bréf til í Bændablaðið til forsætisráðherra, fjármálaráðherra og samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra þar sem hann hvatti stjórnvöld til breytinga til að landbúnaður á Íslandi verði líffvænlegur. Landbúnaðarkerfið sé sundurhoggið og bændur hafi verulegar áhyggjur af því hvernig komið sé og af framtíðinni. 

Hann fullyrðir að ríkisstjórnin sinni ekki því kalli landbúnaðarins. Guðni segir að þeir tollasamningar sem gerðir hafi verið séu of frjálslegir og þeim væri sennilega best að segja upp.

Mikilvægt sé að fara í það verkefni að íslenskur landbúnaður annaðist matvælaframleiðslu. Það væri til að mynda réttast að framleiða agúrkur og tómata hér á landi í stað þess að flytja það inn í stórum stíl, Ísland væri gott landbúnaðarframleiðsluland vegna heilbrigðra búfjárstofna og hreinni jörð.

Guðni sagði engan málsvara vera fyrir bændur í ríkisstjórnininn, engin þekking væri í ráðuneytinu. Það skorti búvísindamenn, þeir hafi farið. Hann talaði um að ný og öflug forysta bænda væri að berjast í tollamálum og fyrir sterkari stöðu matvælaframleiðslunnar án þess að fá aðgerðir. 

Aðspurður sagðist Guðni hafa fengið viðbrögð úr stjórnkerfinu í einkasamtölum, að landbúnaðurinn þurfi að komast í það horf sem hann var. Landbúnaður og hin faglega umgjörð um hann sé mun flóknari en sjávarútvegur og því ríði á að stjórnmálamenn vakni.