Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Norwegian færist framar á brúninni

10.11.2020 - 09:09
Mynd: EPA-EFE / TT NEWS AGENCY
Norska ríkisstjórnin er hætt frekari stuðningi við flugfélagið Norwegian. Við þessi tíðindi urðu hlutabréf í félaginu nær verðlaus og það færðist nær gjaldþroti. Hrun hefur orðið í starfssemi Norwegian eftir að heimsfaraldurinn vegna kórónuveirunnar skall á í vor.

Áhættan sem ríkisvaldið tekur með því að hefja stuðning við fyrirtæki í vanda er að enginn endi verði á stuðningnum. Stöðugt þurfi meiri og meiri pening til halda fyrirtækinu á floti. Og nú kom að því að norska ríkisstjórnin varð að ákveða hvort bætt yrði við þá þrjá milljarða norskra kóna sem flugfélagið Norwegian fékk í vor úr ríkissjóði. Ósk félagsins um ótilgreindan fjölda milljarða í viðbót svaraði Iselin Nybö, viðskiptaráðherra svo:

Við höfum komist að niðurstöðu um hvernig fjármunum samfélagsins skuli varið og ákveðið að styðja ekki Norwegian frekar

sagði ráðherrann og þessu lýsti Jakob Schram, forstjóri Norwegian því sem að fá hnefahögg í magann. Hann sagði á blaðamannafundi  að félagið hefði skýra áætlun um hvernig mætti lifa af til ársins 2022 og peningar frá ríkinu voru inni í þeirri áætlun.  Þetta væri sorgleg niðurstaða bæði fyrir viðskiptavini og starfsfólk, sagði forstjórinn en um 11.000 manns hafa haft vinnu hjá flugfélaginu.

Óvissa um hvað framundan er 

Norwegian bað ríkið formlega um meiri stuðning og neitun núna getur hæglega leitt af sér gjaldþrot. Yfirmenn þar segja að til séu peningar til að standa undir útgjöldum – svo sem launagreiðslum - í fáeinar vikur til viðbótar. Þetta eru þeir peningar sem Norwegian fékk frá ríkinu í maí í vor. Núna veit enginn hvað tekur við. Aðeins að forstjórinn segir að allra leiða verði leitað til að bjarga félaginu í einhverju formi. Við höfum búið okkur undir marga möguleika og munum svara spurningum þar að lútandi þegar ákvarðanir verða teknar, sagði Jakob Schram á blaðamannafundinum.

93% samdráttur

Stuðningur ríkisins hér eftir felst aðeins í að gjöld til flugmálastjórnar eru felld niður og ríkið kaupir takmarkaðan fjölda ferða til að tryggja lágmarks flugþjónustu innanlands og milli landa. Það er aðeins brot af fyrri umsvifum hjá félaginu. Núna í haust hefur samdrátturinn munið um 93% fra því sem var í febrúar í vetur áður en kórónuveiran fór á stjá.

Flugvélaleigur eiga félagið að stærstum hluta

Norwegian er eitt stærsta lággjaldaflugfélag Evrópu og hefur enn 139 flugvélar á skrá. Félagið er eftir fjárhagslega endurskipulagningu í vor að mestu í eigu fyrirtækja sem leigja út flugvélar. Þau voru í hópi stærstu lánardrottna og urðu stærstu hluthafarnir. Núna veltur framtíðin á hvort flugvélaleigurnar vilja leggja fram fé eða að selja flugfélagið hrægammasjóðum fyrir lítið. Framtíðin er óviss.

Ríkið hætt stuðningi

Núna er talið að skuldir Norwegian nemi um 40 milljöðrum norskra króna. Það jafngildir um 600 milljöðrum íslenskra. Mikil hætta er á að þessir peningar glatist nema rekstur á öllum flugflotanum hefðist innan fárra mánaða og að tekjur aukist á ný. Ríkið á þarna 3 milljarða norskra króna í lánaábyrgðum – jafnvirði 45 milljarða íslenskra – og þeir peningar virðast tapaðir. Og norska ríkið er hætt frekari stuðningi.