
Mikil reiði í Armeníu vegna samkomulagsins
Það var Vladimir Pútín, forseti Rússlands, sem greindi frá samkomulaginu í gærkvöld. Ilham Aliyev, forseti Aserbaísjan, hrósaði strax sigri og sagði samkomulagið þýða nánast uppgjöf Armena.
Armenar hefðu verið neyddir til að undirrita það, enda sagðist Nikol Pashinyan, forsætisráðherra Armeníu, hafa gert það með óbragð í munni. Það hefði verið sársaukafullt fyrir hann sjálfan sem og armensku þjóðina.
Fjöldi fólks fór út á götur Jerevan, höfuðborgar Armeníu, eftir tilkynninguna í gærkvöld og réðst æstur múgur inn í stjórnarráð og þinghús landsins. Það krafðist afsagnar forsætisráðherrans og kallaði hann föðurlandssvikara.
Í samkomulaginu er meðal annars kveðið á um að Armenar láti af hendi svæði sem þeir hafa tekið, fangaskipti og fleira, en ekkert fjallað um friðarviðræður og framtíðarskipan mála í Nagorno-Karabakh.
Þá ætla Rússar að senda nærri tvö þúsund manna lið til Nagorno-Karabakh til að annast þar friðargæslu og við landamærin, og eru þeir flutningar þegar hafnir. Umboð gæsluliðsins gildir í fimm ár í senn og endurnýjast sjálfkrafa snúi hvorugt ríkjanna baki við samkomulaginu.
Deilur Armena og Asera um Nagorno-Karabakh hafa staðið í nærri þrá áratugi. Þessi síðustu átök milli ríkjanna hófust seinni partinn í september og er staðfest að yfir þúsund hafi fallið. Mannfall er þó talið mun meira.