Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Meiri eftirspurn mætt með auknum innflutningi

ostur í borði í matvörubúð.
 Mynd: Tracy Olson - Freeimages
Fjölgun ferðamanna á undanförnum árum og breytingar á neysluvenjum hafa orðið til þess að innflutningur landbúnaðarvara hefur aukist töluvert síðasta áratuginn.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýrri skýrslu starfshóps á vegum Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins um þróun tollverndar. Jafnframt að rýmkast hafi um aðgang fyrir innfluttar vörur til Íslands einkum með samingi Íslands við Evrópusambandið um viðskipti með landbúnaðarvörur frá árinu 2018.

Daði Már Kristófersson, prófessor í hagfræði var formaður starfshópsins. Ásamt honum áttu þar sæti Sigurður Eyþórsson tilnefndur af Bændasamtökum Íslands, Tryggvi Másson, tilnefndur af Samtökum atvinnulífsins ásamt Arnari Freyr Einarssyni og Bryndísi Eiríksdóttur frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu.

Erna Bjarnadóttir var upphaflega skipuð í starfshópinn sem fulltrúi Bændasamtaka Íslands, en frá 1. október 2019 tók Sigurður Eyþórsson sæti hennar.

Innlend framleiðsla virðist ekki alltaf hafa haldið í við aukna eftirspurn, sem hafi þá verið mætt með auknum innflutningi. Einkum á það við um kjöt, ost og unnar kjötvörur.

Tollvernd er mest á Íslandi í samanburði við aðildarríki OECD og Evrópusambandsins, þó sambærileg við Noreg og Sviss. Þó hefur dregið úr henni þegar litið er til lengra tímabils.

Innflutningur kjötvara í sögulegu hámarki

„Aldrei frá því að reglum um innflutning grænmetis var breytt eftir aldamót hafa orðið meiri breytingar í innflutningi á landbúnaðarvörum og á tímabilinu eftir 2015, "segir Daði Már Kristófersson, formaður starfshópsins í samtali við fréttastofu.

Í raun telur Daði að aldrei í sögunni hafi verið flutt inn meira af kjöti fyrir íslenska neytendur. „Mikill innflutningur er á hvítu kjöti en talsvert af nautakjöti sömuleiðis,“ segir Daði.

Hann segir jafnramt mikið magn landbúnaðarvara tekið að flæða yfir tollamúrana. Þegar GATT var lagt niður hafi öllum viðskiptahindrunum verið breytt í fasta krónutölutolla.

Með tímanum rýrnaði verðgildi krónunnar og smám saman varð hagstæðara að flytja vörurnar inn. Daði segir bagalegt að gögn um innflutning séu slök og ekki hægt að gera nægilega ítarlega greiningu á því hvað sé verið að flytja inn. 

Í skýrslunni kemur einnig fram að opnir tollkvótar hafi verið veittir tímabundið þegar ákveðnar vörur skorti á markaðinn. Því hafi hlutur innfluttra vara aukist umfram þær innlendu. Sömuleiðis hafa framleiðendur átt erfitt með að bregðast hratt við breytingum.