Emmanuel Macron, forseti Frakklands, hvetur leiðtoga annarra Evrópuþjóða til að grípa til skjótra og samræmdra aðgerða svo koma megi í veg fyrir hryðjuverkaárásir sem hafa þjakað íbúa álfunnar um árabil.
Macron stýrði í dag fjarfundi með meðal annars Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, og Ursulu von der Leyen, forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, þar sem umræðuefnið var viðbrögð við árásum öfgasinnaðra íslamista að undanförnu. Hann fordæmdi hvernig hælisleitendur misnotuðu móttökukerfi ríkja í álfunni í þeim tilgangi að vinna þar hryðjuverk og önnur illvirki. Í öllum löndunum sagði hann að yfirvöld tækjust á við að smyglarar, félagar í glæpagengjum og fólk frá löndum þar sem enginn ófriður ríkti leituðu hælis. Gegn þessu þyrftu Evrópuríki að grípa til skjótra og samræmdra aðgerða. Það mætti gera með því að halda úti sameiginlegum gagnagrunni, skiptast á upplýsingum eða herða viðbrögð gagnvart glæpamönnum.
Fyrir fjarfundinn ræddust Emmanuel Macron og Sebastian Kurz, kanslari Austurríkis, við í Elysee-höll í París. Austurríkismenn fengu einmitt að kenna á hryðjuverkamanni fyrir viku, en hann skaut fjóra til bana í Vínarborg og særði á annan tug til viðbótar.