Stjórnendur Arnarholts voru einnig kallaðir til skýrslutökunnar. Þannig lýsir Kristján Þorvarðarson yfirlæknir því að hann telji að sjúklingar á Arnarholti fái góða meðferð, og að aðstæður á heimilinu hafi batnað mikið að öllu leyti misserin á undan.
Yfirhjúkrunarmaðurinn lýsir því að margir heimilismenn séu mjög erfiðir. Alltaf hafi verið haft samband við lækni ef nauðsynlegt hafi þótt að setja sjúklinga í einangrun í sellunni. Það væri þó til bóta ef annar læknir ásamt geðlækni kæmi á heimilið. Kvartanir sjúklinga séu alltaf teknar alvarlega. Þá segir hann að húsnæðinu sé mest ábótavant.
Skipti sér ekki af hjúkrun
Gísli Jónsson, forstöðumaður Arnarholts, sagði við vitnaleiðsluna, að í upphafi hafi verið miðað við hæli fyrir gamalt fólk og sjúklinga. Í byrjun hafi aldrei verið ætlunin að hafa Arnarholt lokað hæli, en sjúklingum sem þörfnuðust einangrunar hafi verið þröngvað á stofnunina. Í vitnaleiðslunni kvartar Gísli undan yfirhjúkrunarmanninum og segir að hann „hafi ekki allar aðstæður í huga“. Hann segist ekki hafa séð hann beita sjúklinga hrottaskap, en að hann hafi heyrt því fleygt. Sömu sögu segi hann varðandi refsingar gagnvart sjúklingum. Þá segist Gísli ekkert skipta sér af hjúkrun á heimilinu og ekkert geta sagt um þau störf. Þá segist hann hafa rætt við borgarstjóra, borgarritara, borgarendurskoðanda og borgarlækni um þessi mál. Gísli segir að ástandið á heimilinu hafi batnað mikið síðan hann fór að ræða málin.
Gísli skrifaði einnig bréf til heilbrigðismálaráðs, þar sem hann viðurkennir að úrbóta sé þörf á heimilinu. Í bréfinu lýsir hann aðallega töluverðum ófriði milli starfsfólks heimilisins og almennum vandræðum með starfsfólk.
Gátu ekki fallist á niðurstöðurnar
Þrátt fyrir að nefndin sem skipuð var hafi komist að þeirri niðurstöðu að engra aðgerða væri þörf í Arnarholti var borgarstjórn Reykjavíkur ekki á sama máli, eins og áður kom fram. Eftir að fundargerð heilbrigðismálaráðs var rædd fyrir luktum dyrum á fundi borgarstjórnar lögðu borgarfulltrúarnir Steinunn Finnbogadóttir og Adda Bára Sigfúsdóttir fram svohljóðandi tillögu:
„Með hliðsjón af vitnisburðum allmargra starfsmanna, m.a. fostöðumanns og hjúkrunarkonu, getur borgarstjórn ekki fallist á niðurstöður nefndar þeirrar, sem kannaði hagi Vistheimilisins að Arnarholti. Borgarstjórn telur, að það, sem fram hefur komið við yfirheyrslur nefndarinnar, bendi eindregið til þess, að heimilisbragur í Arnarholti sé óviðunandi, framkoma við sjúklinga stundum óverjandi og læknisþjónusta gersamlega ófullnægjandi. Borgarstjórn leggur því fyrir heilbrigðismálaráð og borgarlækni, að því verði hraðað, að geðdeild Borgarspítalans taki við allri stjórn hælisins og jafnframt þegar í stað gerðar ráðstafanir til úrbóta á heimilisháttum og læknisþjónustu.“
Frekari umræðum um málið var frestað til næsta fundar borgarstjórnar. Á þeim fundi var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum sú skipulagsbreyting að Arnarholt yrði hluti af geðdeild Borgarspítalans. Þá vænti borgarstjórn þess að yfirstjórn geðdeildar spítalans bætti úr því sem þurfa þótti í rekstri heimilisins. Tekið var fram að borgarstjórn teldi ekki þörf á aðgerðum gagnvart einstökum aðilum málsins.
Heimilið viðurkennt
Arnarholt var svo fært undir geðdeild Borgarspítalans frá og með 1. september 1971. Eftir það önnuðust læknar geðdeildarinnar rannsóknir og meðferð sjúklinga þar. Í skýrslu Friðriks Sveinssonar héraðslæknis eftir heimsókn á heimilið árið 1972 gerir hann ekki alvarlegar athugasemdir, aðrar en þær að húsakynni séu orðin mjög bágborin, auk þess sem salernis- og hreinlætisaðstaða sé ófullnægjandi. Í kjölfar þeirrar heimsóknar viðurkenndi heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið Arnarholt sem hjúkrunarheimili samkvæmt gildandi sjúkrahúslögum í fyrsta sinn. Það var í febrúar árið 1972.
Arnarholt var starfrækt sem sjúkrastofnun allt til ársins 2005, þegar því var lokað og sjúklingar fluttir á aðrar stofnanir. Fyrir nokkrum árum leigði Útlendingastofnun aðstöðu þar fyrir fólk sem hingað kemur í leit að alþjóðlegri vernd, en í dag eru byggingarnar í Arnarholti leigðar út sem íbúðir.