Lýstu frelsissviptingum og vanrækslu í vitnaleiðslum

Trúnaður hefur ríkt um það sem gerðist í Arnarholti í hálfa öld
Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson / RÚV
Fársjúkt fólk sem dvaldi á vistheimilinu Arnarholti til 1971 var sett í einangrun í litlum fangaklefa vikum saman. Þetta kom fram í vitnaleiðslum yfir starfsfólki sem aldrei hafa komið fyrir sjónir almennings. Þar lýsti starfsfólk órannsökuðum andlátum vistmanna og vanrækslu sem leiddi til andláts. Nefnd sem skipuð var til að rannsaka málið komst að þeirri niðurstöðu að engra aðgerða væri þörf á heimilinu, en þrátt fyrir það var ákveðið á lokuðum fundum borgarstjórnar að grípa til aðgerða.

Hvatt til rannsóknar á öðrum heimilum

Fjöldi fólks hefur fengið greiddar sanngirnisbætur eftir að hafa sætt illri meðferð á stofnunum eða heimilum á vegum ríkisins undanfarna áratugi. Samkvæmt lögum um bæturnar gátu þó aðeins þeir sem voru vistaðir þar sem börn átt rétt á bótum. Bætur voru fyrst greiddar þeim sem vistaðir voru í Breiðavík, og síðast þeim sem vistaðir voru á Kópavogshæli. Alls hefur vistheimilanefnd kannað aðbúnað á fjórtán heimilum og stofnunum og borgað bætur vegna vistunar á þeim.

Ekki hefur farið fram sérstök rannsókn á aðbúnaði fólks sem vistað var fullorðið á slíkum heimilum. Í skýrslu vistheimilanefndar um Kópavogshæli eru stjórnvöld hins vegar hvött til þess að kanna aðbúnað á heimilum, þar sem fullorðið fatlað fólk var vistað.

Eitt þessara heimila sem ekki hafa verið rannsökuð er Arnarholt á Kjalarnesi.

Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV

Arnarholt var fyrst opnað sem heimili árið 1945, og var þá kallað þurfamannaheimili, rekið af Reykjavíkurborg. Í greinargerð borgarlæknisins í Reykjavík frá árinu 1971 segir að þar eigi heima Reykvíkingar sem ekki séu sjálfum sér nógir, sem ekki geti séð um sig sjálfir og eigi ekki samleið með borgarbúum almennt, af ýmsum ástæðum. Vistmenn þar séu með margvísleg vanheilindi, oftast af geðrænum toga. Vistheimilið sé ekki viðurkennd sjúkrastofnun og vistun þangað sé í höndum félagsmálastofnunar borgarinnar.

Svo segir í greinargerðinni:

„Árið 1951 t.d. var sjúkdómsgreining vistmanna þannig: Geðbilaðir 24, ofdrykkjumenn 2, fávitar og örvitar 9, elliglaptir 5, mál- og heyrnarlausir 3 og aðrir sjúkdómar 3.“

Þá segir borgarlæknir að margir þessara sjúklinga hafi þurft „mikillar umönnunar og hjúkrunar við, meiri en starfslið og aðstæður leyfðu.“

Árið 1971 var skiptingin á heimilinu orðin þessi, samkvæmt greinargerðinni:

„Nú eru 38 vistmenn með langvinna geðsjúkdóma, 3 fávitar, 5 drykkjusjúkir og 6 með aðra ágalla skapgerðar, aðferðis og greindar, 2 með flogaveiki og 5 með afleiðingar heilablæðinga, heilabólgu og skjaldkirtilssjúkdóms.“

Í greinargerðinni stendur að vistmönnum hafi fjölgað frá því að heimilið var fyrst opnað, úr 45 í 60. Í skýrslu frá árinu 1972 eru vistmenn sagðir á aldrinum frá tuttugu og tveggja ára til rúmlega áttræðs.

Í skýrslunni frá 1971 er trúnaðarlæknir félagsmálastofnunar borgarinnar, Kristján Þorvarðarson yfirlæknir, sagður heimsækja vistheimilið að minnsta kosti einu sinni í viku. 

Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV

Árið 1970 fór Steinunni Finnbogadóttur, ljósmóður og borgarfulltrúa Samtaka frjálslyndra og vinstri manna, að gruna að ekki væri allt með felldu í Arnarholti. Guðrún Finnbogadóttir, systir Steinunnar, hafði þá unnið í Arnarholti frá árinu áður.

Steinunn vakti athygli á málefnum Arnarholts á nokkrum fundum í borgarstjórn árið 1970. Í október sama ár samþykkti borgarstjórn tillögu Steinunnar þess efnis að ráðast í rannsókn á heimilinu, með það að markmiði að kanna hvort aðbúnaður sjúklinga væri forsvararnlegur, hvort læknisþjónusta og önnur sérfræðiþjónusta samsvaraði þeim kröfum sem gerðar væru og hvort sú ráðstöfun væri almennt heppileg til frambúðar, að reka geðveikrahæli borgarinnar í Arnarholti.

Í kjölfarið fól borgarstjórn heilbrigðismálaráði Reykjavíkur að láta fara fram nákvæma athugun á heimilinu, og óskaði eftir því að rannsókninni yrði hraðað.

Í febrúar 1971 skipaði heilbrigðismálaráð svo nefnd þriggja lækna, sem var falið að rannsaka málið. Nefndin hélt níu fundi og yfirheyrði á þeim 24 aðila, þáverandi og fyrrverandi starfsfólk Arnarholts. Þar á meðal voru átta sem Steinunn óskaði sérstaklega eftir að væru yfirheyrðir, og fékk hún að vera viðstödd þær yfirheyrslur. Að öðru leyti fóru þær fram fyrir luktum dyrum.

Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV

Nefndin skilaði niðurstöðum sínum í lok apríl árið 1971. Í niðurstöðum hennar segir meðal annars að kannaðar hafi verið þær ásakanir sem bornar hafi verið fram á borgarstjórnarfundum og í einu dagblaði, og vörðuðu framkomu við vistmenn, meðferð þeirra og aðbúnað, auk málefna starfsfólks í Arnarholti.
Nefndin komst að þeirri niðurstöðu að engar sannanir hafi fengist fyrir þeim ásökunum sem fram hafi komið.

„Telur nefndin að framkomnar ásakanir krefjist engra frekari aðgerða gagnvart einstökum aðilum,“ 

segir loks í niðurstöðunum.

Steinunn var ekki sátt við þessa niðurstöðu nefndarinnar og óskaði eftir því að fá að ræða málið á lokuðum fundi borgarstjórnar, sem fór fram 1. júlí 1971. Í frétt um fundinn í Morgunblaðinu segir að Steinunn hafi þurft að lesa „upp úr leyniskýrslum“ og borið fram þá tillögu að fundurinn yrði haldinn fyrir luktum dyrum. Tillaga Steinunnar hafi verið samþykkt og að ákveðið hafi verið að fresta málinu til næsta fundar borgarstjórnar.

Sá fundur var 15. júlí og fór hann einnig fram fyrir luktum dyrum. Á þeim fundi náðist samkomulag um tillögu sem var borin fram af fulltrúum allra flokka í borgarstjórn. Þar kemur meðal annars fram að vistheimilið skuli verða hluti af geðdeild Borgarspítalans og að leitað verði eftir viðurkenningu ráðherra á heimilinu sem sjúkrastofnun samkvæmt sjúkrahúslögum.

En hvað varð til þess að borgarstjórn ákvað að grípa til aðgerða, þvert á niðurstöðu læknanna þriggja?

Fréttastofa hefur undir höndum um 100 blaðsíður sem hafa að geyma vitnaleiðslurnar yfir starfsmönnunum 24, en þær vitnaleiðslur hafa ekki verið birtar opinberlega áður. Skýringin er hugsanlega sú, að þar má finna nöfn bæði fjölda heimilismanna í Arnarholti, sem og starfsfólks.

Mynd með færslu
Hér má sjá eina blaðsíðu af rúmlega 100 sem fréttastofa hefur undir höndum, þar sem starfsfólk í Arnarholti lýsir aðbúnaði á heimilinu. Nöfn hafa verið afmáð.

Í vitnaleiðslunum lýsir starfsfólk því meðal annars hvernig heimilismönnum var refsað með því að fá ekki að borða. Þá virðist þeim einnig hafa verið refsað með því að læsa þá úti í hvaða veðri sem var. Sumir starfsmenn lýsa því að heimilisfólk hafi haft lítið sem ekkert aðgengi að lækni, húsakynni hafi verið með öllu ófullnægjandi, og starfsfólk hafi verið of fátt. Þá virðast lyfjamál hafa verið í ólestri og börn hafi dreift lyfjum til vistmanna. Þá er því meðal annars lýst hvernig manni sem fékk heilablæðingu um miðja nótt hafi ekki verið sinnt fyrr en morguninn eftir, lýst er einkennilegri meðferð á líki og slagsmálum starfsmanns og vistmanns, svo fátt eitt sé nefnt. Þá virðast yfirmenn stofnunarinnar hafa átt í töluverðum deilum innbyrðis.

Alvarlegustu atvikin varða hins vegar andlát heimilismanna í Arnarholti, sem virðast hafa verið nokkuð tíð á þessum tíma og lýsir starfsfólkið nokkrum slíkum tilvikum.

Á einum stað segir verkstjóri í Arnarholti svo frá:

„Dagana áður en [X] dó, var hann staddur (dreginn) í mat á milli húsa og virtist, af þeim sem sáu – að hann væri mikið veikur, þetta sáu nokkrir og m.a. undirritaður og hafði ég orð á því að maðurinn væri mikið veikur og spurði ég gangastúlku af hverju hún væri að fara með hann í mat svo fárveikan, hún svaraði: það er ekkert að honum, en maðurinn dó stuttu seinna, án þess að fara undir læknis hendur.“

Á öðrum stað segir:

„Eitt sinn dó vistkona í þann mund, sem læknirinn ók úr hlaði. Fannst liggjandi, hálfstirnuð, að hálfu leyti úr rúminu. Ekki hirt um að ná til læknisins.“

Þá greina starfsmenn frá því þegar dag einn uppgötvaðist að kona sem bjó á heimilinu væri týnd, og að þrátt fyrir að hennar hafi verið saknað frá deginum áður hafi leit ekki verið hafin. Konan fannst stuttu síðar, látin í flæðarmálinu.

„Virtust stellingar hinnar látnu vera þannig að hún hefði króknað,“

segir í vitnaleiðslunum. Starfsfólkið spyr í vitnaleiðslunum hvers vegna leit hafi ekki verið hafin um leið og konunnar var saknað, og eins af hverju læknir var ekki kallaður til að skoða hina látnu.

Annar vistmaður virðist svo hafa látist með svipuðum hætti, en þegar uppgötvaðist að hann væri týndur var Hjálparsveit Skáta kölluð til með sporhund. Fannst hann skömmu síðar og var hann þá „frosinn“ eins og það er orðað.

 

Þá segir á öðrum stað:

Árið 1969 hafi sjúklingi að nafni [X] verið vísað út á útivistartíma sjúklinga, þótt hún hafi verið veik. Hafi [X] veikst um nóttina og látizt um morguninn.

 

Mynd með færslu
Hér má sjá eitt skjalið úr vitnaleiðslunum. Nöfn hafa verið fjarlægð.

Þá virðast refsingar hafa verið algengar á heimilinu eins og eftirfarandi frásögn starfsmanns af sjúklingi ber með sér:

„Var lokaður inni í herbergi sínu vikum saman, vegna þess að hann vildi strjúka. Þarfir sínar var hann látinn gera í fötu, en hún var geymd í klæðaskáp herbergisins. Skuggsýnt var í þessu herbergi, enda lítill þakgluggi. Hann var eins og hellisbúi þarna inni, órakaður og óhreinn, þegar að hann fór á ganginn, þá var hann talsverða stund að venjast dagsbirtunni.“

Algengast var hins vegar að heimilismönnum væri refsað með því, að þeir voru látnir í „selluna“. Sellan var steinsteyptur einangrunarklefi, með einum litlum glugga upp undir lofti, sem búið var að setja járnrimla fyrir. Í vitnaleiðslunum lýsir hjúkrunarkona því að sellan hafi verið notuð ef sjúklingar voru ölvaðir, ef hætta var á stroki eða ef um „manískan sjúkling“ var að ræða.

Þjáður andlega og líkamlega

Einn starfsmaður lýsir því hvernig gamall maður á heimilinu hafi fengið gefins hálfa vodkaflösku og orðið kenndur. Hann hafi spurt yfirmann heimilisins hvað skyldi gera, og svarið hafi verið að hann skildi setja gamla manninn í selluna.

Þá lýsa starfsmenn einum sjúklingi sem sagður var „þjáður andlega og líkamlega“.

„Lemur höfði við steinveggi. Grætur þá stundum hátt og er þá settur inn í „sellu“, en þar grætur hann lægra. Er þar hafður í nokkra daga, „sem ekki þykir mikið“. Þetta skeði nokkuð oft. Læknirinn vissi um, að sellan var oft notuð.“

Sama sjúklingi er lýst á öðrum stað:

„Þegar angist og höfuðkvalir sóttu harðast að honum kom það oft fyrir að hann barði höfðinu við steinveggi og grét svo hátt að heyra mátti í nokkurri fjarlægð. Var hann þá tekinn og settur í einangrun á „selluna“ á þeim forsendum, að reynsla hefði sýnt, að þegar hann hefði verið lokaður inni á „sellu“ í nokkra daga, þá gréti hann lægra tímakorn á eftir. En þegar [X] gat ekki lengur haldið grátinum í skefjum, upphófst sama sagan á ný og hann settur inn á „selluna“, ef hún var þá laus.“

„Til þess á ég engin orð“

Einhver skelfilegasta lýsingin af notkun sellunnar varðar hins vegar tvítugan heimilismann í Arnarholti, sem starfsmaður segir að hafi verið með þroska á við átta til níu ára barn. Drengurinn átti það til að strjúka og fara til móður sinnar í Reykjavík. Starfsmaðurinn lýsir því hvernig drengurinn var eitt sinn settur í selluna, fyrir að strjúka til móður sinnar.

„Og þar var hann lokaður inni svo vikum skipti. Eina tilbreytingin í þessari rökkurvist, var þegar hann var baðaður, honum færður matur og drykkur, gólfið þvegið og koppurinn tæmdur. Ég reyni ekki að lýsa hugarstríði og líðan drengsins, til þess á ég engin orð. Fannst mér hann vera orðinn svo daufur og niðurdreginn, að óhug sló að mér, hvað sem um aðra hefur verið. Þessar aðfarir með drenginn munu skýrðar af ábyrgum aðila sem „geðræn meðferð“.“

Enn annar sjúklingur var hafður í sellunni mjög lengi, þótt óljóst sé af skýrslunum hversu lengi:

„Var einu sinni settur í einangrun allt árið, sem [X] var úti. Þetta er manískur sjúklingur, í þessu tilfelli var hann það slæmur að ekki voru aðstæður fyrir hendi að hafa hann innan um hina sjúklingana.“

„Ótrúlegt hirðuleysi“

Í vitnaleiðslunum er starfsfólkinu einnig mjög tíðrætt um húsakynnin. Á einum stað segir meðal annars:

„Í gripahúsinu hafast við um 30 vistmenn. Það má segja að það beri vott um ótrúlegt hirðuleysi að hafa vistað sjúklinga í þessum húsakynnum í samfellt 30 ár.“

Þá er eftirfarandi haft eftir einum starfsmanninum:

„[X] sagði, að ástandið að Arnarholti minnti sig helzt á þýzku fangabúðirnar.“

Margvíslegar aðrar lýsingar má finna í vitnaleiðslunum, sem varða lífið í Arnarholti á þessum tíma. Sem dæmi má nefna, að starfsmaður lýsir athæfi eins vistmanns með eftirfarandi hætti:

„Hafði holdleg mök við geðveika stúlku, hana var ekki búið að sterelisera (er ekki búið enn þá). Strax og ég vissi um athæfi hans hringdi ég í [X] lækni, og sagði honum hvernig var, hann útskrifaði manninn strax.“

Mynd með færslu
Hér má lesa um nokkur tilvik sem komu upp í Arnarholti. Nöfn hafa verið fjarlægð.

Stjórnendur Arnarholts voru einnig kallaðir til skýrslutökunnar. Þannig lýsir Kristján Þorvarðarson yfirlæknir því að hann telji að sjúklingar á Arnarholti fái góða meðferð, og að aðstæður á heimilinu hafi batnað mikið að öllu leyti misserin á undan.

Yfirhjúkrunarmaðurinn lýsir því að margir heimilismenn séu mjög erfiðir. Alltaf hafi verið haft samband við lækni ef nauðsynlegt hafi þótt að setja sjúklinga í einangrun í sellunni. Það væri þó til bóta ef annar læknir ásamt geðlækni kæmi á heimilið. Kvartanir sjúklinga séu alltaf teknar alvarlega. Þá segir hann að húsnæðinu sé mest ábótavant.

Skipti sér ekki af hjúkrun

Gísli Jónsson, forstöðumaður Arnarholts, sagði við vitnaleiðsluna, að í upphafi hafi verið miðað við hæli fyrir gamalt fólk og sjúklinga. Í byrjun hafi aldrei verið ætlunin að hafa Arnarholt lokað hæli, en sjúklingum sem þörfnuðust einangrunar hafi verið þröngvað á stofnunina. Í vitnaleiðslunni kvartar Gísli undan yfirhjúkrunarmanninum og segir að hann „hafi ekki allar aðstæður í huga“. Hann segist ekki hafa séð hann beita sjúklinga hrottaskap, en að hann hafi heyrt því fleygt. Sömu sögu segi hann varðandi refsingar gagnvart sjúklingum. Þá segist Gísli ekkert skipta sér af hjúkrun á heimilinu og ekkert geta sagt um þau störf. Þá segist hann hafa rætt við borgarstjóra, borgarritara, borgarendurskoðanda og borgarlækni um þessi mál. Gísli segir að ástandið á heimilinu hafi batnað mikið síðan hann fór að ræða málin.

Gísli skrifaði einnig bréf til heilbrigðismálaráðs, þar sem hann viðurkennir að úrbóta sé þörf á heimilinu. Í bréfinu lýsir hann aðallega töluverðum ófriði milli starfsfólks heimilisins og almennum vandræðum með starfsfólk.

Gátu ekki fallist á niðurstöðurnar

Þrátt fyrir að nefndin sem skipuð var hafi komist að þeirri niðurstöðu að engra aðgerða væri þörf í Arnarholti var borgarstjórn Reykjavíkur ekki á sama máli, eins og áður kom fram. Eftir að fundargerð heilbrigðismálaráðs var rædd fyrir luktum dyrum á fundi borgarstjórnar lögðu borgarfulltrúarnir Steinunn Finnbogadóttir og Adda Bára Sigfúsdóttir fram svohljóðandi tillögu:

„Með hliðsjón af vitnisburðum allmargra starfsmanna, m.a. fostöðumanns og hjúkrunarkonu, getur borgarstjórn ekki fallist á niðurstöður nefndar þeirrar, sem kannaði hagi Vistheimilisins að Arnarholti. Borgarstjórn telur, að það, sem fram hefur komið við yfirheyrslur nefndarinnar, bendi eindregið til þess, að heimilisbragur í Arnarholti sé óviðunandi, framkoma við sjúklinga stundum óverjandi og læknisþjónusta gersamlega ófullnægjandi. Borgarstjórn leggur því fyrir heilbrigðismálaráð og borgarlækni, að því verði hraðað, að geðdeild Borgarspítalans taki við allri stjórn hælisins og jafnframt þegar í stað gerðar ráðstafanir til úrbóta á heimilisháttum og læknisþjónustu.“

Frekari umræðum um málið var frestað til næsta fundar borgarstjórnar. Á þeim fundi var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum sú skipulagsbreyting að Arnarholt yrði hluti af geðdeild Borgarspítalans. Þá vænti borgarstjórn þess að yfirstjórn geðdeildar spítalans bætti úr því sem þurfa þótti í rekstri heimilisins. Tekið var fram að borgarstjórn teldi ekki þörf á aðgerðum gagnvart einstökum aðilum málsins.

Heimilið viðurkennt

Arnarholt var svo fært undir geðdeild Borgarspítalans frá og með 1. september 1971. Eftir það önnuðust læknar geðdeildarinnar rannsóknir og meðferð sjúklinga þar. Í skýrslu Friðriks Sveinssonar héraðslæknis eftir heimsókn á heimilið árið 1972 gerir hann ekki alvarlegar athugasemdir, aðrar en þær að húsakynni séu orðin mjög bágborin, auk þess sem salernis- og hreinlætisaðstaða sé ófullnægjandi. Í kjölfar þeirrar heimsóknar viðurkenndi heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið Arnarholt sem hjúkrunarheimili samkvæmt gildandi sjúkrahúslögum í fyrsta sinn. Það var í febrúar árið 1972.

Arnarholt var starfrækt sem sjúkrastofnun allt til ársins 2005, þegar því var lokað og sjúklingar fluttir á aðrar stofnanir. Fyrir nokkrum árum leigði Útlendingastofnun aðstöðu þar fyrir fólk sem hingað kemur í leit að alþjóðlegri vernd, en í dag eru byggingarnar í Arnarholti leigðar út sem íbúðir.

10.11.2020 - 19:02