Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Lánasjóður sveitarfélaga láni fyrir fasteignagjöldum

10.11.2020 - 06:59
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Fyrirtæki í hótel- og gistiþjónustu óskuðu eftir því við sveitarfélög að fasteignagjöld yrðu felld niður á tímum kórónuveirufaraldursins.Varakrafa þeirra er að gjöldunum verði dreift með skuldabréfi til langs tíma, sem yrði fjármagnað með láni frá Lánasjóði sveitarfélaga.

Þetta hefur Morgunblaðið eftir Kristófer Óliverssyni formanni Fyrirtækja í hótel- og gistiþjónustu. Hugmyndin er að sjóðurinn lánaði sveitarfélögunum fjárhæð sem næmi ógoldnum fasteignagjöldum, á lágum vöxtum.

Í kjölfarið yrði gefið út skuldabréf á hvert fyrirtæki með lögveði í fasteigninni sem fasteignagjöldin tengist. Kjörin á þeim yrðu að spegla vexti Lánasjóðsins, þannig gætu þeir orðið undir 1%.

Haft er eftir að Kristófer að mögulega þyrfti að veita ríkisábyrgð til að liðka fyrir en ef af yrði, væri þetta mjög viðráðanleg lausn fyrir hótel- og gistihúsarekendur.