Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Kári um nýtt bóluefni: „Lítur alveg gífurlega vel út“

Mynd: Hjalti / RÚV
Kári Stefánsson forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar telur að bóluefnið sem lyfjafyrirtækin Pfizer og BioNTech kynntu í gær dugi til að stöðva kórónuveirufaraldurinn.

Kári segir að niðurstöður rannsókna gefi tilefni til mikillar bjartsýni.

„Þetta lítur alveg gífurlega vel út. Það er búið að prófa þetta á 44 þúsund manns. Og það virðist samkvæmt þeirra tölum þá hefur þetta varið fólk 90 prósent tilfella. Þannig að þetta bóluefni virðist vera betra en venjulegt bóluefni gegn inflúensu og svo framvegis. Þannig að þeir hafa ekki séð neinar aukaverkanir. Þeir segjast geta verið búnir að búa til 50 milljónir skammta fyrir lok ársins. Þeir segjast geta búið til 1,3 milljarða skammta á næsta ári. Þannig að það lítur út fyrir að þetta bóluefni og að öllum líkindum önnur bóluefni af svipuðum gæðum komi til með að kveða þennan faraldur í kútinn á næsta ári,“ segir Kári.

Hann býst við því að Bandaríkjamenn hefji bólusetningar strax í næsta mánuði. Hann segir að bóluefninu fylgi ýmis úrlausnarefni.

„Þetta er dálítið nýstárlega og því fylgja svolitlir gallar og einn af þeim er að það verður að geyma þetta við mjög lágan hita sem býr til svolítið vandamál. Annað sem er svolítið vandamál í þessu sambandi er að það verður að bólusetja menn tvisvar með þessu bóluefni. Með tveggja vikna millibili. En af því slepptu þá virðist þetta vera stórkostleg bóluefni,“ segir Kári.

Viðtalið við Kára Stefánsson má sjá í spilaranum hér að ofan. 

 

Höskuldur Kári Schram
Fréttastofa RÚV