Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Jólabókaflóð á tímum veirunnar

Mynd: RÚV - Eggert Þór Jónsson / RÚV

Jólabókaflóð á tímum veirunnar

10.11.2020 - 09:17

Höfundar

„Þrátt fyrir álagið, óheppilega þyngdarpunktinn á rekstrarárinu, samkeppnina og allt sem gæti farið úrskeiðis er gaman að vinna á vertíð. En í ár, þegar svo margt er öðruvísi en við eigum að venjast, er jólabókaflóðið í uppnámi,“ segir Gréta Sigríður Einarsdóttir í pistli um jólabókaflóð á tímum veirunnar.

Gréta Sigríður Einarsdóttir skrifar:

Líkt og mandarínur í verslunum er jólabókaflóðið árlegur boðberi jólanna. Lesendur bíða í ofvæni eftir Bókatíðindum og ilmandi nýjum bókum í hillur verslana. Fyrir rithöfunda, útgefendur og bóksala er þetta vertíð. Stærsti hluti tekna þeirra kemur inn á örstuttu tímabili í desember og mikið veltur á að allt gangi upp. Bókaútgefendur hafa lengi reynt að minnka vægi jólabókanna í rekstrinum yfir árið. Í ljósi óvissunnar í kjölfar heimsfaraldursins er ekki úr vegi að rifja upp hversu lítið má út af bregða. Bransinn hefur alltaf þurft að vera útsjónarsamur en ástandið undirstrikar ýmsa áhættuþætti. Eins skemmtilegt og flóðið er, þá er það hættuspil að leggja öll egg bókmenntalífsins í jólakörfuna. 

Sagan

Jólabækur og hnattrænar hamfarir eiga meira sameiginlegt en við höldum. Sagan segir að jólabókaflóðið eigi rætur að rekja til vöruskorts vegna seinni heimsstyrjaldarinnar. Pappír var eitt af því fáa sem var auðfáanlegt og bókin varð vinsæl jólagjöf. Lengi eftir það þótti tíðindum sæta ef bók kom út utan aðventunnar. Síðustu ár hefur kiljuútgáfa yfir árið aukist en desember vegur þó enn langþyngst. 

Þó kiljur séu æ fyrirferðarmeiri á markaðnum vilja enn flestir gefa innbundnar bækur í jólagjöf. Það kemur sjaldnar og sjaldnar fyrir að þýdd verk komi út í innbundinni bók, þá helst þegar stórvirki sígildra bókmennta eru íslenskuð. Skáldsagan hefur ríkt yfir bókajólunum síðustu ár, ekki síst glæpasagan. Ljóð og smásögur fá minna pláss. Aftur á móti hefur útgáfa í hinum óljósa flokki „bækur almenns eðlis“ aukist, og matreiðslu- og hannyrðabækur hafa nú meira vægi en áður.  

Prentið

Að búa til bók snýst ekki aðeins um að skrifa orðin niður. Það þarf líka að velja pappír, brjóta um, ákveða upplagið, prenta og binda inn, flytja til landsins og dreifa í verslanir. Tíminn er knappur og ekki margt má fara úrskeiðis. Nú eru flestar jólabækurnar prentaðar erlendis. Sú breyting olli því að útgefendur þurfa að leggjast yfir kristalskúlur sínar fyrr en áður og veðja á hvað hver bók seljist mikið. Það er sárt að sitja uppi með stórt upplag eftir jól af bók sem ekki seldist sem skyldi en enn sárara er ef heitasta bók jólavertíðarinnar selst upp. Þegar bækurnar eru prentaðar erlendis er enginn tími til að koma annarri prentun í búðir fyrir jól. Mörg skref í ferlinu eiga að tryggja að bókin sem komi upp úr kössunum fyrir jólin sé gallalaus en alltaf getur eitthvað komið fyrir. Í einni vinsælli jólabók fyrir nokkrum árum var málvilla á fyrstu blaðsíðunni. Það var bagalegt en öllu verra var fyrsta árið sem meirihluti jólabókanna var prentaður erlendis og endurprenta þurfti talsverðan hluta bókanna með tilheyrandi töfum og tilkostnaði. Þar að auki var plastið utan um bækurnar svo ljótt að rífa þurfti allt upplagið af jólabókunum úr umbúðunum og setja í nýjar. 

Heimsfaraldurinn og efnahagskreppan sem fylgir hafa undirstrikað vandamálin við hnattvæðinguna. Framleiðslu- og flutningskeðjur geta rofnað og smærri framleiðendur sérstaklega átt á hættu að vörur tefjist. Mörg íslensk fyrirtæki prenta efni sitt í Evrópu, þar sem faraldurinn er víða í örum vexti. Ef vandamál koma upp er erfitt að leita til innlendra prentaðila þar sem nauðsynlegur mannafli, þekking og búnaður er ekki lengur til staðar. 

Hvað er í húfi?

Forlögin eru ekki í áskrift að tekjunum í desember. Samkeppnin er hörð og allir þurfa að berjast fyrir sínum skerf af athyglinni. Samkeppnin hefur líka aukist í smásölunni. Bókabúðum hefur fækkað á landsbyggðinni og matvöruverslanir tóku upp á því að bjóða jólabækurnar til sölu. Þegar verslanir í borginni fóru að selja jólabækurnar sömuleiðis urðu bóksalar ósáttir. Verslanir sem reka sérhæfða þjónustu allan ársins hring með tilheyrandi kostnaði mega nú keppa við lágvöruverðsverslanir á mikilvægasta tíma ársins. Samkeppnin ýtir verðinu niður og hagnaðurinn af hverri seldri bók minnkar. Lagt hefur verið til að bóksala í matvöruverslunum verði bönnuð til að vernda bókabúðirnar en sú lausn gæti skapað fleiri vandamál en hún leysir. 

Matvöruverslanir eru ekki stærsta vandamálið í ár, heldur það að um þessar mundir er viðskiptavinum sagt að vera heima hjá sér. Það er súrt í broti hafa varið löngum tíma í að undirbúa vöru, vitandi að það er aðeins eitt tækifæri til að selja hana, og eiga svo á hættu að grípa í tómt þegar kemur að kaupendunum.

Öðruvísi í ár

Þrátt fyrir álagið, óheppilega þyngdarpunktinn á rekstrarárinu, samkeppnina og allt sem gæti farið úrskeiðis er gaman að vinna á vertíð. En í ár, þegar svo margt er öðruvísi en við eigum að venjast, er jólabókaflóðið í uppnámi. Í sumar bárust fréttir af því að bóksala hefði dregist saman en notkun hljóðbóka aukist. Fjöldatakmarkanir í verslanir og á samkomur setja strik í reikninginn. Er þá úti um jólabókaflóðið? Ef fólk kemst hvorki í búðir né á viðburði, er þá vertíðin brostin, síldin farin og allt eins hægt að loka búllunni? Ekki er öll von úti enn. Í kjölfar bankahrunsins brást fólk við með því að draga saman seglin og leita í áhugamál á borð við hannyrðir, matargerð og bóklestur. Þegar heimsfaraldurinn skall á og fólk var hvatt til að vera heima hjá sér varð vart við sömu viðbrögð, nú í enn meiri mæli. Eftir langan dag fyrir framan skjá á fjarfundum er kærkomin tilbreyting að glugga í bók. Á nýlegum viðburði á vegum bókmenntaborgar ræddu bóksalar ástandið og sammæltust um að þau merktu ákveðnari áhuga hjá lesendum á bókum. Færri mæta í bókaverslanir til að skoða sig um en þeir sem koma vita hvað þeir vilja og netverslun hefur aukist. Lítið verður um utanlandsferðir á aðventunni og jólagjafakaup eru líkleg til að fara í auknum mæli fram hérlendis. Jólabókaflóðið sem varð til í heimsstyrjöld gæti gengið í endurnýjun lífdaga vegna heimsfaraldurs.

Og það eru ekki einungis skáldsögurnar sem heilla. Annar hver maður hefur tekið upp prjónana og á súr í eldhúsinu. Endurnýjun þekkingarinnar er sótt í bækur. Prjónar og garn seljast ítrekað upp í verslunum og hví ættu prjónabækur og matreiðslubækur ekki að gera það líka? Fyrir þá sem nýta tímann heima til að taka til í geymslunni kemur út bók um skipulag og bækur um hlaup og heimaæfingar gætu orðið vinsælar fyrir þá sem komast ekki í líkamsræktarstöðvar. Margir viðburðir hafa ekki verið slegnir af heldur fara fram á netinu. Það kemur ekki í staðinn fyrir stemninguna að vera á staðnum en gæti jafnvel þýtt að fleiri landsmenn geta notið þeirra. 

Við eigum öðruvísi bókajól í vændum. Það er ólíklegt að við fáum tækifæri til að rekast utan í marga kunningja fyrir framan stafla af nýjum bókum í bókabúð eða á upplestrum. Í staðinn fáum við nægan tíma uppi í sófa með bók. 

Bókajólin í ár bjargast þó sjálfsagt enda hafa allir aðilar í geiranum áralanga reynslu af því að bregðast við hörmungarástandi - og enginn vill sleppa jólabókaflóðinu, það er skemmtilegasti árstími bókaunnenda. En ástandið í ár er góð áminning um að halda áfram að stefna að því að jafna álagið yfir árið - það er skemmtilegt að lesa bækur allan ársins hring. 

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Bók sem afneitar helförinni kynnt í Bókatíðindum

Bókmenntir

Kreppan bjargaði bókabúðum

Bókmenntir

Bókabíllinn í fimmtíu ár

Bókmenntir

Bókabúðin er „stærsti skúlptúrinn okkar“