Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Í farvegi að stilla upp forgangshópum fyrir bóluefni

Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir að nú sé hafin vinna við að stilla upp forgangshópum fyrir bólusetningu gegn COVID-19 og að verið sé að skoða með hvaða hætti heilsugæslan komi til með að skipuleggja almenna bólusetningu gegn kórónuveirunni í landinu.

Í viðtali í Síðdegisútvarpinu á Rás 2 í dag sagði Svandís að stjórnvöld væru í sambandi við Evrópusambandið í gegnum Svíþjóð til að tryggja að Ísland fengi sinn skammt af bóluefni. „Þetta gerist hratt og dagurinn í gær markaði þáttaskil og allir eru mjög vongóðir, þótt enn sé ýmsum spurningum ósvarað,“ sagði hún. 

Ánægjulegt að faraldurinn sé að ganga niður

„Við erum náttúrulega að sjá faraldurinn ganga niður og við þurfum að sjá það í einhvern tíma. Og það er ánægjulegt í sjálfu sér því ef við berum okkur saman við það sem er að gerast í Evrópu, þá er samkvæmt nýjustu tölum sem ég hef séð, þá erum við eina ríkið í Evrópu fyrir utan Íra sem erum á niðurleið í smitum þegar horft er viku og tvær vikur aftur í tímann. Þannig það er greinilegt að þessar aðferðir sem við erum að beita eru að skila árangri. Og það er auðvitað gott en hins vegar veit ég að þetta reynir á. En við höfum verið býsna drjúg, Íslendingar, í því að takast á við þetta saman,“ sagði Svandís. 

Aðspurð hvað henni fyndist um gagnrýni á sóttvarnaráðstafanir stjórnvalda sagði Svandís eðlilegt að fólk ræddi aðgerðirnar. „Ég held að það sé eðlilegt, í lýðræðissamfélagi, að fólk tali um þessa hluti. Það á aldrei að vera sjálfsagt að ganga á réttindi fólks. Það þarf að vera rökstutt og það þarf að vera skýr ástæða fyrir því. Enn er það þannig að það er mjög stór meirihluti þjóðarinnar sem styður þessar aðgerðir og það er betra en verður sagt um mörg önnur ríki. Við höfum notið þeirrar blessunar að samfélagið hefur verið í meginatriðum samstíga,“ segir Svandís.

Nokkrir þættir ekki lengur „á rauðu“

Svandís minntist á að hópsmitið á Landakoti væri áminning um það hversu skæð veiran væri. „Þetta er náttúrulega mjög sorglegt og hugur minn er hjá aðstandendum þessara einstaklinga sem féllu frá í þessari atburðarás. En það minnir okkur á það hvað þessi veira er skæð,“ sagði hún. Staðan á spítalanum væri smám saman að batna og að það skipti miklu máli að spítalinn gæti sinnt sínu hlutverki. Í síðustu viku hefðu nokkrir þættir í heilbrigðiskerfinu verið „á rauðu“ en nú væru allir komnir „á gult eða grænt“.