Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Hver gerir Trump ódauðlegan?

Mynd: EPA-EFE / Polaris Images POOL

Hver gerir Trump ódauðlegan?

10.11.2020 - 15:14

Höfundar

Samkvæmt hefðinni verður fráfarandi forseti Bandaríkjanna gerður ódauðlegur með portretti. En hvaða listamann velur Trump? Hann er augljóslega hrifinn af gulli og marmara en hvernig myndlist er hann hrifinn af?

Þegar Trump kom sér fyrir í Hvíta húsinu eftir kosningarnar 2016, veltu margir því fyrir sér hvort þau hjónin myndu taka með sér eitthvað af listaverkum til að skreyta nýju híbýlin með. Og margir Ameríkanar sem líta á sig sem boðbera góðs smekks, veltu því fyrir sér með nokkrum hryllingi, hvort nýi stíllinn í Hvíta húsinu myndi kannski verða eitthvað í ætt við þriggja hæða penthouse-íbúð þeirra hjóna í Trump-turni á Manhattan, en stílinn þar mætti kannski kalla rococo kitsch á sterum.

Það er fyrir því rík hefði í Bandaríkjunum að nýr forseti og forsetafrú setji mark sitt með einhverjum hætti á Hvíta húsið. Roosevelt tók til að mynda með sér uppstoppuð elgshöfuð og skreytti nokkur herbergi hússins með þeim. Jackie Kennedy tók nokkur herbergi í gegn með hefðbundna bandaríska smekkvísi og byggingarsögu að leiðarljósi og Clinton hjónin tóku afsteypu af Hugsuði Rodins með sér á nýja heimilið. Oftar en ekki fá forsetar lánuð myndlistarverk frá söfnum eða mikilsvirtum stofnunum sem hanga á veggjum Hvíta hússins út kjörtímabilið, eða jafnvel lengur.

Obama-hjónin fluttu með sér töluvert  af 20. aldar list, sem þau fengu lánaða frá söfnum landsins og sem eru nú enn í safni Hvíta hússins. Það sem þau völdu til að prýða híbýli sín voru meðal annars Jasper Johns, Rauschenberg, Josef Albers og Alma Thomas, en hún varð þannig fyrsta svarta myndlistarkonan til að koma sinni list að í Hvíta húsinu. Yfir arninum í svefnherberginu hengdu Obama-hjónin svo verk eftir Whistler.

Það voru sem sagt uppi vangaveltur um áhuga Trumps á myndlist og mögulegu vali á verkum sem myndu fylgja honum í Hvíta húsið. Fyrri kynni Trumps af myndlistarheiminum höfðu fram að því verið áhugaverð. Hann hafði að minnsta kosti ekki verið góður í að lesa í markaðinn, því eins góður og hann telur sig nú vera í þeirri list, þá virðist hann ekki hafa mikið skynbragð á markaðsmöguleika myndlistar, eins og kynni hans af bæði Warhol og Chris Ofili vitna um.

Mynd með færslu
Verk Chris Ofili.

Árið 1999 var Hin heilaga Madonna breska listamannsins og Turner verðlaunahafans, Chris Ofili, til sýnis í Brooklyn-safninu í New York. Verkið var hluti af sýningu á verkum ungra breskra listamanna. Sýningin kallaðist Sensation og margir af þeim listamönnum sem þar sýndu eru í dag orðin stór nöfn í listaheiminum. Sýningin vakti mikla athygli og ekki síst Hin heilaga María Ofilis. Verkið sýnir svarta Maríu mey sitja á gylltum bakgrunni, en umhverfis guðsmóðurina fljúga skínandi litlir marglitir rassar. Rassarnir virðast í fyrstu vera fiðrildi en við nánari skoðun sést að þeir eru klipptir úr klámmyndablöðum. Einnig er María sjálf, sem er sveipuð ljósbláum og glitrandi kyrtli, með frekar grófa andlitsdrætti og mætti jafnvel líkja munni hennar við ávöxt, eða kvensköp.

Undan bláum kyrtlinum sést svo glitta í annað brjóstið en það er mótað úr fílakúk, alvöru fílakúk, svo verkið er ekki bara málverk heldur unnið með blandaðri tækni. Verkið stendur einnig á tveimur kúlum sem einnig eru mótaðar úr fílakúk.

Verkið vakti nokkra hneykslan og borgarstjóranum og góðvini Trumps, Rudy Giuliani, var ekki skemmt. Giuliani var reyndar svo misboðið að sjá sjálfa Maríu mey fá þessa útreið að hann hótaði að draga allan fjárstuðning til safnsins til baka yrði verkið ekki fjarlægt. Trump blandaði sér svo í umræðuna og sagði verkið einskis virði, hver sem er gæti sett svona saman, þetta væri ekki list heldur viðbjóður og að verkið flokkaðist augljóslega undir úrkynjaða list. Verkið, sem seldist á 4,6 milljónir dollara árið 2015, er nú í eigu MoMa og er talið vera eitt að lykilverkum 20. aldarinnar.

Svipaða sögu er að segja af samskiptum Trumps við Warhol, en hann hafði hugmyndir um að láta listamanninn gera sig ódauðlegan. Trump og fyrsta eiginkona hans Ivana hittu Warhol í frægri verksmiðju hans árið 1981 og til eru heimildir af fundinum úr dagbókum Warhols, sem ritar þann daginn að Trump sé butch guy, að ekkert hafi verið ákveðið en að hann geri einhver verk. Útkoman voru átta svart/hvít silkiprent, stráð demantsdufti, af Trump-turni, og vonaðist Warhol til að þau yrðu hengd upp í turninum sjálfum, yfir innganginum að íbúð hjónanna.

Mynd með færslu
 Mynd: wikicommons

Trump aftur á móti keypti verkin ekki, fannst litapallettan ekki passa. Í dagbókina ritar Warhol að Trump hafi ekki verið ánægður með útkomuna og orðið frekar æstur þegar hann sá verkið, og veltir því fyrir sér hvort verkin hafi mögulega verið of mörg, og þannig ruglað hjónin. Verkið fór allavega aldrei í Trump-turninn en seldist hæstbjóðanda nokkrum árum síðar fyrir fúlgur fjár.

Önnur saga af samskiptum Trumps við heimsfrægan listamann komst í fréttirnar í forsetatíð hans. Reyndar átti hann ekki bein samskipti við listamanninn sjálfan heldur við Nancy Spector, sýningarstjóra hjá Guggenheim-safninu í New York. Trump langaði skyndilega að skreyta skrifstofu sína með verkinu Landslag í snjó, eftir Vincent Van Gogh frá árinu 1888, og bað Guggenheim-safnið um að fá það lánað. Spector aftur á móti neitaði honum um þá bón en bauð honum annað meistaraverk í staðinn, samtímalistaverk eftir hinn virta og oft á tíðum umdeilda ítalska listamann Maurizio Cattelan. Verkið er skúlptúr frá árinu 2016, kallast Ameríka og er klósett úr átján karata gulli. Verkið var sérstaklega gert fyrir sýningu á Guggenheim-safninu og var tengt með pípulögnum á einu baðherbergja safnsins þar sem það var öllum gestum laust til brúks út sýningartímann. Þannig að 100 árum eftir að Duchamp sýndi sitt klósett í Bandaríkjunum tók Cattelan klósettið skrefi lengra með því að koma því í notkun og gylla það í leiðinni.

Verkið sló í gegn og þúsundir gesta nýttu sér það, og bentu kannski í leiðinni á hversu gróteskur listheimurinn getur verið í öllu sínu ofurkapítalíska gullveldi. Trump aftur á móti sá hvorki fegurð, húmor, verðmæti, né notagildi í verkinu, nema þá að hann hafi einungis séð notagildið og afþakkað klósettið á þeim forsendum, kannski á hann bara nóg af gylltum klósettum. Allavega er turninn hans fullur af gulli, marmara, kristalsljósakrónum og impressjónistum. Já, impressjónistum, því þó Trump virðist ekki vera mikið fyrir konsept-list þá virðist hann fíla franska rómantík. Það hanga víst einhver Renoir-verk uppi í gullturninum, en það er kannski fyrst og fremst vegna verðgildis, frekar en réttrar litapallettu eða einlægs áhuga á verkunum, því þegar blaðamaður spurði hann út í eitt Renoir-verkið yppti hann bara öxlum og sagði það kosta 10 milljon dollara. Sem er áhugavert því Trump virðist  fyrst og fremst skreyta hallir sínar og turna með eftirlíkingum.

Eftir kosninguna 2016 sat Trump í Trump turni og veitti fréttaskýringaþættinum 60 mínútum viðtal framan við Renoir-verk. Umrætt verk kallast Tvær systur og áður hafði Trump stært sig af verðgildi þess við blaðamann New York Times. Eftir sjónvarpsviðtalið kom svo upp úr dúrnum að upprunalega verkið er eitt af djásnum Listasafnsins í Chicago þar sem það einmitt hangir uppi. Annað verk eftir Renoir, Leikhússvítan frá árinu 1874, hangir líka uppi í híbýlum Trump-hjónanna en upprunalega verkið er hluti af safnaeign í London. Já, Trump virðist láta sig það litlu varða hvort verk eru upprunaleg eða ekki, en ýjar samt að því við blaðamenn að verkin séu upprunaleg. Atvik sem átti sér stað í sendiherrabústaðnum í París teiknar þessa mynd af Trump enn skýrari dráttum. Það varð allt vitlaust þegar Trump var þar staddur vorið 2018 og átti að heimsækja minnisvarða fallinna bandarískra hermanna, en neitaði að fara. Hann eyddi deginum þess í stað í sendiráðinu og ástæðan sem hann gaf fyrir skrópinu var það sem gerði allt vitlaust, afhverju ætti ég að fara í þennan gamla kirkjugarð, til hvers ætti ég að gera það þegar garðurinn er bara fullur af loosers, eða aumingjum, spurði Trump blaðamenn.

Heimildarmenn gáfu síðar upp að deginum hafi Trump varið í að velja sér listaverk úr sendiherrabústaðnum til að taka með sér heim. Talsmaður Hvíta hússins sagði í kjölfarið að Trump hefði valið sér nokkur verk, fögur og söguleg, verk sem tilheyrðu, jú, amerísku þjóðinni, og ættu því að vera í húsi fólksins, Hvíta húsinu. En annað kom á daginn þegar sérfræðingar Hvíta hússins drógu gersemarnar fram. Trump hafði meðal annars valið sér Portrett af Benjamin Franklin frá árinu 1785 eftir franska listmálarann Joseph Duplessis. Nafn þessa ágæta málara væri sennilega ekki þekkt í dag ef ekki væri fyrir þetta tiltekna portrett af Benjamin Franklin, en sú ásýnd sem Duplessis gaf honum er sú ímynd sem allir Bandaríkjamenn hafa af þessari bandarísku hetju, því portrettið prýðir hundrað dollara seðilinn.

Mynd með færslu
 Mynd: wikicommons

Og þar er kannski komin ástæðan fyrir áhuga Trumps á verkinu. En þegar heim var komið kom í ljós að portrettið var þá þegar í Bandaríkjunum, og ekki bara í Bandaríkjunum heldur í næsta nágrenni við Hvíta húsið, í portrettadeild Þjóðminjasafnsins. Þegar fölsunin kom í ljós bauðst Þjóðminjasafnið til að lána Hvíta húsinu upprunalega verkið og þar hangir það í dag, og fær að hanga þar til forsetatíð Trumps líkur. Auk þess að velja málverk og brjóstmynd úr bronsi af Benjamin Franklin, hafði Trump valið sér silfurstyttu af gríska sjávarguðinum Póseidon. Styttan sú átti að hafa verið gerð af ítölskum meistara á 16. öld, en það verk reyndist líka vera eftirlíking. En Trump var alveg sama og Póseidon stendur núna í herbergi forsetans. Það er því nokkuð ljóst að Trump stendur meira á sama um fake art en fake news. En já, það var sem sagt mikið pælt í því hvort Trump-hjónin myndu taka með sér eitthvað af sínum íburðarmikla stíl í Hvíta húsið, eða velja þangað inn nýja myndlist, en svo virðist ekki vera, fyrir utan nokkrar eftirlíkingar. Og þá er komið að því að velta framhaldinu fyrir sér, því allt frá því að George Washington tók við stjórn landsins hefur verið málað portrett af fráfarandi forseta til að hengja upp í Hvíta húsinu. Og hefð er fyrir því að forsetinn velji listamanninn sjálfur.

Málverk eftir Andy Thomas af Donald Trump í hópi forseta Bandaríkjanna úr repúblíkanaflokknum.
 Mynd: Andy Thomas
Málverk Andy Thomas, The Republican Club.

Margir hafa veðjað á að Trump útnefndi Andy Thomas en hann málaði The Republican Club, olíuverk sem hangir á skrifstofu Trumps. Áhugavert verk sem sýnir þá félaga, Trump, Ford, Reagan, Bush, Nixon og fleiri sitja sallarólega í umhverfi sem gæti allt eins verið nítjándu aldar París og draumkennd birtan varpar rómantískum ljóma á mennina sem hlæja, sumir með bjór aðrir með kók. Hvort Thomas þessi verði fyrir valinu verður forvitnilegt að sjá en það er allavega nokkuð víst að Trump hringir ekki í Mauricio Cattelan, né þá heldur Chris Ofili, sem er auðvitað synd, því þá fyrst myndi verkið verða forvitnilegt.