Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Gerir ráð fyrir að lögvernduðum starfsheitum fækki

10.11.2020 - 22:30
Mynd: Guðmundur Bergkvist / Fréttir
Íslendingar lögvernda flestar starfsgreinar allra Evrópuríkja. Í nýrri skýrslu OECD er lagt til að lögverndun bakara og ljósmyndara verði afnumin. Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ferðamála- iðnaðar- og nýsköpunarráðherra segir tilefni til breytinga.

 

OECD gerir hátt í 700 athugasemdir við íslensk lög og reglur á sviði ferðaþjónustu og byggingariðnaðar í nýju samkeppnismati sem unnið var að beiðni ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. 

„Það er mat OECD að við getum þarna í rauninni búið til eða losað um 30 milljarða á ári og það er aldeilis tala sem skiptir okkur máli. Þetta er auðvitað verkefni sem fór af stað löngu fyrir covid en er kannski enn nauðsynlegra núna. Þetta verður forgangsatriði hjá mér og í mínu ráðuneyti og ég vona að við getum fengið stuðning þaðan sem við þurfum stuðninginn til að hrinda þessu í framkvæmd.“

Lagðar eru til um 440 tillögur að úrbótum sem eiga að einfalda regluverk og auka hagvöxt. Meðal annars er lagt til að lögvernduðum störfum verði fækkað, en samkvæmt OECD lögvernda Íslendingar flestar starfsgreinar allra Evrópuríkja. 

„Ég geri ráð fyrir því að þeim muni fækka og ég hef lagt á það áherslu að vilja ekki fjölga þeim sérstaklega. Við gerum ríkari kröfur, við notum staðla, við erum með neytendavernd, við erum með alls konar aðrar kröfur í regluverkinu okkar sem að hljóta á einhverjum tímapunkti að koma í staðinn fyrir lögverndun. Verkefnið að fara í gegnum þetta og flokka með tilliti til þess hvað er málefnalegt og hvar eru kannski leyfar af gömlum tíma.“

Lagt er til að lögverndun bakaraiðnar verði afnumin. Landssamband bakarameistara hefur þegar svarað því og segir OECD fara langt út fyrir verksvið sitt. Lögverndun iðngreina sé undirstaða í fjölgun iðnmenntaðra og tryggi gæði og fagleg og örugg vinnubrögð. 

„Það er algjörlega fyrirséð að það mun koma gagnrýni, ekki bara frá bökurum heldur fjöldanum öllum af hópum og einstaklingum. Þetta verkefni ögrar og það er okkur hollt að fara í gegnum það.“

 

solveigk's picture
Sólveig Klara Ragnarsdóttir
Fréttastofa RÚV