Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Fjöldi sýna bíður riðugreiningar

10.11.2020 - 12:44
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Tilraunastöð Háskóla Íslands að keldum getur greint um 400 riðusýni á viku. Nokkur þúsund sýni bíða greiningar og mikið álag á starfsfólk.

Matvælastofnun hefur tekið sýni úr mörgu fé innan Tröllaskagahólfs eftir að riða greindist þar. Sýnin eru greind Í tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum. þetta er venjulega háannatími þar sem sýni frá sláturhúsum landsins eru skimuð fyrir riðu. Árlega eru greind um 3000 sýni frá sláturhúsum. Ofan á það bætast nú forgangssýni úr Tröllaskagahólfi.

Unnið á kvöldin og um helgar

Sigurður Ingvarsson forstöðumaður á Keldum segir mikið álag á starfsfólki; „Það er hefðbundið að það séu bara tveir starfsmenn að vinna í þessu á ársgrundvelli, nú höfum við fært starfsfólk yfir til þess að vinna í þessu og það er unnið framm á kvöld og um helgar til þess að reyna að kortleggja þetta verkefni.“

Keldur fái vefjasýni úr heila og taugavef og sýnastreymið sé skipulagt af hálfu Matvælastofnunar. Það sé tímafrekt að vinna sýnin og koma þeim yfir á rétt form til þess að framkvæma greininguna en greiningin sjálf sé tiltölulega fljótleg. „En þegar þetta er komið í hús til okkar þá brettum við upp ermar og reynum að klára þetta sem fyrst,“ segir Sigurður.

Geta greint um 400 sýni á viku

Nú bíða um 4000 sýni greiningar, tæplega 2000 af þeim eru hefðbundin sláturhússýni frá Tröllaskagahólfi. Úrvinnslugeta er um 400 sýni á viku. Nokkur hundruð forgangssýni hafa verið greind úr hólfinu. Enn bíða nokkur hundruð forgangssýni greiningar og sýnatöku er ekki lokið.

Riða hefur verið staðfest á fjórum bæjum í Skagafirði, þegar hefur verið skorið niður á tveimur þeirra. Fullorðnu fé hefur verið ekið í brennslustöð Kölku á Reykjanesi en lömb urðuð við Skarðsmóa í Skagafirði.