Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Ekki lagaheimild til lóga öllum minkum í Danmörku

10.11.2020 - 12:50
Mynd: Vefsíða TV-2 Danmörku / TV-2 Danmörku
Óvissa ríkir nú um hvort öllum minkum í Danmörkum verður lógað eftir að í ljós kom að ríkisstjórnina skortir lagaheimild til að fyrirskipa minkabændum að aflífa dýrin. Mette Frederiksen, forsætisráðherra, tilkynnti á fréttamannafundi í síðustu viku að öllum minkum yrði lógað vegna þess að kórónuveiran hefði stökkbreyst í minkum og borist í fólk. Það gæti leitt til þess að bóluefni við veirunni væru gagnslítil gegn stökkbreyttu veirunni. Slíkt gæti haft skelfilegar afleiðingar.

Viðurkenndi að lagaheimild skortir

Í morgun viðurkenndi Mogens Jensen, landbúnaðarráðherra, að lagaheimild skorti til að fyrirskipa að dýrum á búum þar sem smit hefur ekki greinst verði lógað. Stjórnarandstaðan hefur gagnrýnt Jensen harkalega og krafist afsagnar hans. Jensen og ríkisstjórnin hefur beðist afsökunar.

Alvarlegt mál fyrir stjórnina

Fréttaskýrandi danska ríkisútvarpsins segir málið mjög alvarlegt fyrir Mogens Jensen og ríkisstjórnina sem hafi fyrirskipað að öllum minkum skyldi fargað án þess að hafa lagaheimild til þess. Ríkisstjórnin ætlaði að reyna að fá danska þingið til að samþykkja neyðarlög á einum degi sem heimilaði að öllum minnkum yrði lógað, en ekki er meirihluti fyrir því. Engu að síður er búist við að nauðsynlegar lagabreytingar verði gerðar á næstu dögum.

Minkabætur krefjast bóta

Minkabændur hafa krafist bóta, segja ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að lóga öllum dýrum jafngilda eignaupptöku. Þeir eru grami,  Nicki Løbner minkabóndi furðar sig á að enginn í ríkisstjórninni hafi áttað sig á að lagaheimild skorti, það sé skammarlegt. 

Minkarækt mikilvæg á Norður-Jótlandi

Talið er að á milli 15 og 18 milljónir minka hafi verið í búum í Danmörku. Minkarækt er sérstaklega mikilvæg á Norður-Jótlandi þar sem flest búin eru. Landshlutinn er í einangrun vegna smitsins á minkabúunum.