Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Bakarar gagnrýna tillögur OECD

10.11.2020 - 19:37
Mynd með færslu
 Mynd: Pixabay
Landssamband bakarameistara á Íslandi sendi frá sér tilkynningu í kvöld um að sambandið gerði alvarlegar athugasemdir við ummæli Angel Gurría, framkvæmdastjóra Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD), þess efnis að bakaraiðn ætti ekki að njóta lögverndar. Þetta sagði framkvæmdastjórinn á kynningarfundi um niðurstöður mats OECD á samkeppnishindrunum í byggingariðnaði og ferðaþjónustu.

OECD segir of yfirgripsmikla löggildingu skaðlega

Í niðurstöðum OECD er fjallað um að of umfangsmikil lögverndun starfsgreina komi niður á neytendum með hærra verði á neysluvörum, minni framleiðni og fækkun starfa. Þá er vísað til þess að á Íslandi séu fleiri lögverndaðar starfsgreinar en í öðrum Evrópuríkjum. í skýrslunni segir að miklar aðgangshindranir séu til staðar á mörkuðum fyrir hvers kyns starfsemi sem krefjist fjölda löggildra fagaðila. 

OECD leggur til að ráðist verði í heildarendurskoðun á löggjöf um löggiltar starfsgreinar og metið hver markmið löggildingar eru. Þá er lagt til að einkaréttur til tiltekinna starfa verði afnuminn eða þrengdur og að kerfi meistararéttinda verði endurskoðað. Að lokum er lagt til að tekið verði til skoðunar að draga úr reglubyrði fyrir smiði, rafvirkja, pípara, byggingastjóra, löggilta hönnuði, fasteignasala, arkitekta og verkfræðinga. Og síðast en ekki síst leggur OECD til að löggilding bakara og ljósmyndara verði afnumin með öllu. 

Segja löggildinguna tryggja gæði

„Ekki er annað hægt en að furða sig á þessum starfsháttum stofnunarinnar sem með þessari tillögu virðist fara langt út fyrir verksvið sitt,“ segir í tilkynningu frá Landssambandi bakarameistara.

„Landssamband bakarameistara bendir á að í íslensku samfélagi er almennt lögð rík áhersla á fagmennsku, gæði, öryggi, neytendavernd og menntun. Kapp er einnig lagt á að auka fjölda iðnmenntaðra og mæta þannig þörf markaðarins fyrir slíkt vinnuafl. Lögverndun iðngreina eru í raun ákveðin undirstaða í þeirri vegferð enda er markmið þeirra að tryggja gæði sem og fagleg og örugg vinnubrögð í iðngreinum,“ segir jafnframt í tilkynningunni.

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV