Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Bætur vegna niðurskurðar úreltar

Mynd með færslu
 Mynd: Elsa María Guðlaugs Drífudót - RÚV
Nú er skoðað hvernig unnt sé að koma til móts við bændur sem þurfa að skera niður vegna riðu. Bæturnar eru sagðar úreltar og ekki í samræmi við gildandi samning milli stjórnvalda og bænda.

Þegar fé er skorið niður vegna riðu fá bændur greiddar bætur vegna þess tjóns sem þeir verða fyrir, svokallaðar niðurskurðarbætur. Að auki eru bætur sem snúa að afurðartapi á meðan þeir eru fjárlausir og síðan er kostnaður vegna hreinsunarstarfs og búnaðar sem þarf að eyða og bæta greiddur. Niðurskurðarbætur eiga líka að standa undir þeim kostnaði sem bændur verða fyrir ef þeir kaupa sé nýjan bústofn og hefja búskap á ný. 

Reglugerðin komin til ára sinna

Unnsteinn Snorri Snorrason, framkvæmdastjóri Landssamtaka sauðfjárbænda segir hafa verið kallað eftir því um talsvert skeið að reglugerðin um bæturnar sé endurskoðuð enda sé hún komin til ára sinna. Tjónamatið sé ekki í takt við það sem gerist í dag, bæturnar séu lægri heldur en kostnaður við að kaupa líflömb. Að auki sé reglugerðin ekki uppfærð í samræmi við gildandi samning milli stjórnvalda og bænda svo það sé ekki hægt að fá greiðslur sem annars fengjust út úr þeim samningi.

Þarf stuðning yfir lengri tíma

Eftir niðurskurð tekur við mikið hreinsunar- og uppbyggingar starf. Síðan eru tvö ár í fjárleysi. Þá er hægt að kaupa ásetningslömb, gimbrar og hrúta af hreinum svæðum og hefja búskap á ný. Unnsteinn segir vanta meiri stuðning við bændur þann tíma sem það tekur að ná búrekstrinum upp í það form sem hann var í þegar niðurskurðurinn átti sér stað. Það sé ekki fyrr en á þriðja eða fjórða ári eftir að gimbrar séu keyptar sem hjörðin sé orðin þannig samsett að hún skili fullum afurðum.

Fundað þétt en engin niðurstaða

Eftir að riða var staðfest á fjórum bæjum í Skagafirði í október hafa Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið og Landssamtök sauðfjárbænda skoðað hvort það sé ástæða og tækifæri til þess að endurmeta reglugerðina. Unnar segir þau leggja mikla áherslu á að vinnunni sé flýtt. Það sé fullur skilningur á því að þetta þurfi að skoðast og það sé fundað þétt en það sé ekki komin nein niðurstaða í málið. „Það er mjög slæmt að það skuli ekki hafa náðst árangur í að endurskoða þessa reglugerð því það er eitthvað sem hefur blasað við okkur í langan tíma,“ segir Unnsteinn. 

Þeir bæir sem er skorið niður á núna, fá þeir þá bætur eftir þessum gömlu reglum sem eru taldar úreltar? „Það er það sem við erum að benda á og eigum eftir að fá úrskorið hvernig verður farið með það.“