Ákveðið hefur verið að byggja 5.500 fermetra lúxushótel á Þengilhöfða við Grenivík. Áætlað er að framkvæmdir hefjist næsta vor.
Að verkefninu standa Björgvin Björgvinsson og Jóhann Haukur Hafstein, athafnamenn í ferðaþjónustu á Norðurlandi, í samstarfi við erlenda fjárfesta.
Hótelið nefna þeir Höfði Lodge og verðar það 40 herbergi, þar af fjórar svítur, en auk þess veitingastaður, heilsurækt, ráðstefnuaðstaða og fleira. Sérstök áhersla verður lögð á afþreyingarferðamennsku fyrir hótelgesti. Meðal annars þyrluskíðun, fjallaferðir, hvalaskoðun og veiði.
Hótelið verður byggt á Þengilhöfða, sem gengur út í austanverðan Eyjafjörð, með útsýni út fjörðinn og yfir á Tröllaskaga. Í tilkynningu kemur fram að framkvæmdir við byggingu hótelsins hefjist næst vor og stefnt sé að opnun þess í lok árs 2022.