Í fréttum hefur verið fjallað um langa biðlista inn á hjúkrunarheimili og þörf á fleiri hjúkrunarrýmum.
Halldór Sigurður Guðmundsson, framkvæmdastjóri Öldrunarheimila Akureyrar segir þurfa að huga að fleiri lausnum heldur en að byggja steinsteypu. Það þurfi að búa til kerfi sem byggir á heildrænni, heildsteyptri þjónustu og fara í nýsköpun.
Stórefla heimahjúkrun
Úrræðin þurfi að vera fjölbreyttari, auka verði dagþjónustu og efla velferðartækni. Á Íslandi sé fyrst og fremst lögð áhersla á að byggja hjúkrunarrými og miklu meira framboð sé af þeim hér heldur en á Norðurlöndunum þar sem áhersla er lögð á að nýta tæknina og heimahjúkrun Hana ættum við að efla og það stórkostlega; „ekki bara par hundrað milljóna, við þurfum að setja milljarða að mínu mati í heimahjúkrunina,“ segir Halldór og gera fólki þannig kleift að búa lengur heima.
Ódýrara heldur en að byggja
Þróunarverkefni um breytt skipulag í öldrunarþjónustu í Suðaustur-Finnlandi hafi skilað því að 95% Finna eldri en 75 ára á svæðinu búi heima, hér sé talan um 83%. Þá sé heimaþjónustan ódýrari í rekstri en hjúkrunarheimili, ef okkur tækist til eins og Finnum hefðum við 27 milljarða til ráðstöfunar á ári hverju til að nýta í heimaþjónustu.
Þarf hugarfarsbreytingu
Halldór segir hugarfarsbreytingu í samfélaginu nauðsynlega. „Við þurfum í miklu meiri mæli að líta svo á að það sé sjálfsagt og eðlilegt að eldra fólk haldi þeirri virðingu og reisn sem við erum að ætlast til, til dæmis í málefnum fatlaðra, þar sem er sjálfstæð búseta og þjónustukjarnar.“ segir hann. Það sama eigi að gilda í öldrunarmálum, það eigi að vera hægt að veita fólki þjónustu heima.