Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Þrír létust vegna COVID-19 á Landspítalanum

09.11.2020 - 09:03
Mynd með færslu
 Mynd: Mohammad reza Fathian - Pexels
Þrír sjúklingar létust vegna COVID-19 á Landspítalanum síðasta sólarhring. Greint er frá þessu á vef Landspítalans í morgun. Þar vottar spítalinn aðstandendum samúð.

Í gær var tilkynnt um tvo sem létust úr sjúkdómnum. Nú hafa alls 23 látist hér á landi vegna COVID-19 og heimsfaraldurs kórónuveirunnar. Tíu létust úr sjúkdómnum í vor en 13 hafa látist í seinni bylgju faraldursins í haust.

Allir sem hafa látist úr COVID-19 í haust voru á gamals aldri. Í síðustu viku höfðu 944,3 manns eldri en 80 ára af hverjum 100.000 smitast af kórónuveirunni. Það hlutfall tók stórt stökk fyrir um þremur vikum þegar hópsýking greindist á öldrunardeild Landspítalans á Landakoti.

Í gær voru 80 manns á sjúkrahúsi með COVID-19 sjúkdóminn hér á landi og fjórir á gjörgæsludeild.