Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Mikilvægt að tryggja óháðar rannsóknir

Mynd með færslu
Ólafur Wallevik, forstöðumaður Rannsóknastofu byggingariðnaðarins í mygluskálanum í Keldnaholti  Mynd:
Forstöðumaður Rannsóknarstofu byggingariðnaðarins segir mikilvægt að halda úti óháðum rannsóknum og eftirliti með myglu og rakaskemmdum í húsum. Annað auki hættu á hagsmunaárekstrum.

 

Rannsóknarstofa byggingariðnaðarins er hluti af Nýsköpunarmiðstöð Íslands sem lögð verður niður um áramótin. Í mygluskálanum svokallaða við Keldnaholt í Reykjavík hefur verið í gangi rannsókn á áhrifum myglu á byggingarefni.  Mikil óvissa hefur ríkt um framtíð þessarar rannsóknar út af þeim breytingum sem eru framundan.

Iðnaðarráðherra sagði í fréttum sjónvarps á föstudag að breytingarnar ættu ekki að leiða til þess að rannsóknir og eftirlit með myglu skertust. Hugmyndir eru meðal annars uppi um að útvista þessu að einhverju leyti til fyrirtækja á einkamarkaði.

Ólafur Wallevik, forstöðumaður rannsóknarstofunnar, segir mikilvægt að slíkar rannsóknir séu gerðar af óháðum stofnunum.

„Þetta yrði alveg sérstakt í Evrópu ef að það væri engin óháð rannsóknarstofa. Það eru þó nokkrar verkfræðistofur sem gera mjög góða hluti. Og við höfum verið í samvinnu við þá í gegnum hópinn Betri byggingar. Það er margt að gerast. En í dag er mikill mismunur á milli stofanna,“ segir Ólafur.

Það auki hættu á hagsmunaárekstrum ef þessar rannsóknir fara alfarið til einkaaðila.

„Niðurstaðan á algjörlega að vera óháð markaðsöflum. Það þýðir ekki að aðrir geti ekki gert svipaða greiningu og við en það á alltaf að hafa óháðan aðila,“ segir Ólafur.

Halldóra Mogensen þingmaður Pírata hefur lagt fram þingsályktunartillögu um aðgerðir vegna rakaskemmda. Hún segir mikilvægt að tryggja áfram óháðar og sjálfstæðar rannsóknir. Þannig megi auka þekkingu og bæta um leið réttindastöðu fólks.

„Við erum að sjá fólk lenda á örorku út af því að það er að vinna til lengri tíma og búa í mygluskemmdu húsnæði og þannig að það er mjög mikilvægt að taka á þessum málaflokki,“ segir Halldóra.

 

Höskuldur Kári Schram
Fréttastofa RÚV