
Lögregla sinnti mörgum sálgæsluverkefnum í nótt
Í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í morgun kom fram að lögreglumenn hefðu í nótt sinnt mörgum málum þar sem veita hafi þurft fólki sálrænan stuðning, þótt í engu þeirra hafi komið til sjúkrahúsinnlagnar.
„Þetta er eitt af þessum grunnhlutverkum lögreglunnar – þegar við komum fólki til aðstoðar að reyna að skilja við það þannig að það sé allavega í því ástandi að það sé óhætt að skilja við það,“ segir Ásgeir Þór Ásgeirsson yfirlögregluþjónn. „En ef ekki þá er það allavega okkar hlutverk að útvega fólkinu viðeigandi aðstoð ef við treystum okkur ekki til að klára verkefnið.“
Geta verið erfið mál
Ásgeir hefur ekki tölfræði yfir það hvort málum af þessum toga hafi fjölgað í faraldrinum, enda séu þau ekki skráð sem tiltekinn málaflokkur.
„Ég geri bara fastlega ráð fyrir því að það sé aukning í þessu hjá okkur eins og við höfum heyrt frá þeim sem eru að aðstoða fólk í þessum málum, eins og hjá Rauða krossinum – þar hefur þessum málum fjölgað og þau hafa þyngst,“ segir Ásgeir.
Málin séu miserfið og lögreglumenn hafi mismikla reynslu til að takast á við þau. „En vissulega geta þetta verið erfið mál,“ segir Ásgeir Þór Ásgeirsson yfirlögregluþjónn.
Þeim veikustu líður verr
Óskar Reykdalsson, forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðsins, segir að þar finni fólk fyrir aukinni aðsókn í sálfræðiþjónustu. „Já, við finnum fyrir því. Það er meiri aðsókn og fólki, sérstaklega þeim sem eru veikastir fyrir, virðist líða verr,“ segir Óskar.
„Stjórnvöld hafa nú áttað sig á því og veitt í þetta ákveðnum aukafjárveitingum núna fyrir eitt ár og við höfum ráðið til okkar nokkra sálfræðinga til viðbótar þeim sem við höfðum fyrir,“ segir hann.
Fullorðnir bíða í 8-10 vikur
Um átta til tíu vikna bið er nú eftir sálfræðiþjónustu fullorðinna og fjögurra til sex vikna bið eftir sálfræðiþjónustu barna, sem Óskar segir ekki ýkja langan tíma. Óskar segir erfitt að slá á hversu aðsóknin hefur aukist í faraldrinum, enda sé sálfræðiþjónusta á heilsugæslunni frekar ný og hafi því aukist mjög jafnt og þétt undanfarið.
Hins vegar er sérstaklega forgangsraðað í þágu þeirra sem finna fyrir afleiðingum faraldursins, sem Óskar segir að séu þá ýmist áhyggjur af heilsufari, fjárhag eða þá vanlíðan vegna einangrunar.
„Við gerum þetta þannig að það er sérstök leið fyrir þá sem finna fyrir COVID-tengdum kvíða þannig að þeir geta þá fengið aðeins fyrr þjónustu heldur en aðrir,“ segir hann. „Það er mjög mikið að gera og það eru mjög mörg samtöl og símtöl og viðtöl hjá öllum okkar sálfræðingum þessa stundina.“