Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Hvatningarverðlaun Dags gegn einelti veitt í dag

Laufey Eyjólfsdóttir, kennari og umsjónarmaður með Olweusarverkefninu í Melaskóla, hvatningarverðlaun á degi gegn einelti 2020.
 Mynd: Heimili og skóli
Laufey Eyjólfsdóttir kennari hlýtur hvatningarverðlaun á Degi gegn einelti í ár. Verðlaunin hlýtur hún fyrir að hafa haft umsjón með Olweusarverkefninu í Melaskóla allt frá árinu 2004. Í rökstuðningi með fjölmörgum tillögum með nafni Laufeyjar kemur fram að hún hafi unnið að því að styðja og leiðbeina starfsfólki skólans við að koma óæskilegri hegðun og samskiptum í réttan farveg. Eineltiskannanir sýni að það hafi borið tilætlaðan árangur.

Dagur gegn einelti er nú haldinn í tíunda sinn frá því hann var fyrst haldinn 8. nóvember 2011. Í tilkynningu frá Heimili og skóla, landssamtökum foreldra, kemur fram að í ár hafi hafi í fyrsta sinn verið hægt að tilnefna einstaklinga eða verkefni sem hafi barist ötullega gegn einelti.

Samtökin hófu á síðasta ári formlegt samstarf við Menntamálastofnun og mennta- og menningarmálaráðuneytið með umsjón með deginum. Fagráð eineltismála í grunn- og framhaldsskólum fór yfir þær fjölmörgu tilnefningar sem bárust og valdi verðlaunahafann.

Niðurstaðan var kynnt við fámenna athöfn í Þjóðleikhúsinu en vegna sóttvarna- og samkomutakmarkana var henni streymt. Í tilefni dagsins frumsýndu Heimili og skóli nýtt myndband þar sem fólk til fyrirmyndar sendir skilaboð gegn einelti.

Lilja D. Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra afhenti Laufeyju verðlaunin ásamt Sigrúnu Eddu Eðvarðsdóttur formanni Heimilis og skóla. Árið 2012 hlaut kvennalandsliðið í knattspyrnu verðlaunin og meðal annarra verðlaunahafa má nefna Pál Óskar Hjálmtýsson, Magnús Stefánsson og Þorlák Helga Helgason framkvæmdastjóra Olweusar-verkefnisins.

„Laufey sýnist okkur vera einstaklingur með hjartað á réttum stað, með næmt auga fyrir því sem betur má fara í samskiptum og ómetanlegur drifkraftur í svo stórum skóla sem Melaskóli er. Það er ómetanlegt fyrir skólasamfélag Melaskóla að njóta góðs af hennar störfum, enda þarf ekki að velkjast í vafa um að þarna er eldhugi að verki sem brennur fyrir velferð barna,“ segir í umsögn fagráðsins um útnefningu Laufeyjar Eyjólfsdóttur.