Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Hlutfall látinna hærra en í fyrstu bylgju

Mynd: Almannavarnir / Almannavarnir
Þrettán hafa látist af völdum COVID-19 í þriðju bylgju faraldursins og Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir að hlutfall látinna sé orðið hærra en það var í fyrstu bylgjunni. Fimm létust nú um helgina.

Hlutfall innlagna er einnig orðið hærra en í fyrstu bylgjunni. Um 160 manns hafa verið lagðir inn á sjúkrahús í þriðju bylgju faraldursins frá miðjum september.

Fleiri smit meðal eldra fólks skýri fjölda innlagna og dauðsfalla

„Innanlandssmitum heldur áfram að fækka hægt og bítandi og það ber að þakka góðri þátttöku almennings fyrir það í þeim aðgerðum sem lagt hefur verið upp með. Alvarleg veikindi eru hins vegar algengari en áður og hlutfall innlagna hærra og dauðsföll hlutfallslega fleiri. Og ég held að það sé hægt að skýra þetta með því að það hafa verið fleiri eldri einstaklingar sem hafa veikst núna upp á síðkastið,“ sagði Þórólfur á upplýsingafundi Almannavarna í dag. 

Hann bætti við að ef þróunin í nýgreiningum héldi áfram með þeim hætti sem verið hefði mætti búast við að staðan á Landspítalanum færi batnandi.

Alls liggja 75 á spítala með COVID-19 og þrír á gjörgæslu. Sex þeirra sem liggja inni eru á Sjúkrahúsinu á Akureyri og þar er enginn á gjörgæslu. Þrír af þeim sextán sem greindust í gær voru á Eyjafjarðarsvæðinu.  

Ljóst að hvergi má slaka á

Þórólfur sagði að til þess að koma í veg fyrir fleiri hópsýkingar mætti hvergi slaka á. Hann minnti á að núgildandi takmarkanir giltu til 17. nóvember og sagði að á næstunni mætti vænta nýrra tillagna frá honum. Hann sagðist ekki tilbúinn til að tjá sig um það hvað myndi felast í þeim en sagðist myndu leggja til að það yrði farið hægt í tilslakanir. 

Ef fólk færi eftir reglum og leiðbeiningum ættum við að geta séð fram á góða aðventu og góð jól. „Það er að segja ef við gætum að okkur í sóttvörnum, forðumst hópamyndanir, gætum að nálægðarreglunni, notum grímur á réttan hátt og forðumst að mæta til vinnu eða á mannamót ef við finnum fyrir veikindum,“ sagði hann. 

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV