Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Hafa þungar áhyggjur af lágu verði til sauðfjárbænda

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Dalabyggð, Strandabyggð, Reykhólahreppur og Húnaþing vestra hafa þungar áhyggjur af of lágu afurðaverði til sauðfjárbænda. Sveitarfélögin skora á afurðastöðvar að gefa út afurðaverð næsta árs strax fyrir áramót.

Þetta segir í sameiginlegri ályktun sveitarfélaganna fjögurra. Í þeim öllum sauðfjárrækt stór atvinnugrein. Rúmlega tuttugu prósent kindakjöts sem framleitt var hér á landi á síðasta ári kom þaðan. Afurðastöðvar gáfu verð út óvenjuseint í ár. Þegar var byrjað að slátra á sumum stöðum áður en verð var loks birt í byrjun september. 

Kristján Sturluson er sveitarstjóri í Dalabyggð.

„Það náttúrulega sér hver maður að það er óviðunandi og fráleit staða fyrir hvaða rekstraraðila sem er að vera að selja frá sér afurðir og vita ekki hvaða verð hann er að fá fyrir þær.“

Dalabyggð, Strandabyggð, Reykhólahreppur og Húnaþing vestra skora því á afurðastöðvar að gefa út verð næsta árs nú fyrir áramót. Þau benda líka á hve lágt afurðaverð sé. Í ár sé meðalverð 502 krónur á kílóið en ætti að vera 190 krónum hærra ef það hefði fylgt verðlagsþróun síðustu sex ára. 

Kristján segir að ungt fjölskyldufólk hafi nýlega tekið við rekstri á þónokkrum búum. 

„Það er ákveðin endurnýjun, þó maður vildi auðvitað sjá hana vera meiri. en það er erfitt að hefja rekstur, og það er enn erfiðara ef óvissan er svona mikil eins og raunin hefur verið.“