Tónlistarkonan Bríet er aðeins 21 árs en hefur á undraskömmum tíma tekist að verða einn vinsælasti tónlistarmaður landsins. Nýjasta plata hennar, Kveðja, Bríet, er langmest spilaða plata landsins í dag. Laginu Rólegur kúreki hefur til dæmis verið streymt oftar en fjögur hundruð þúsund sinnum á Spotify og platan hennar, sem inniheldur níu lög, er eins og hún leggur sig á meðal fimmtán vinsælustu laga landsins á streymisveitunni. Ekkert lát virðist ætla að vera á vinsældunum. Bríet kíkti í Rokkland til Ólafs Páls Gunnarssonar og sagði frá tilurð plötunnar og þeim svimandi vinsældum sem hún hefur öðlast. Þakklæti er henni efst í huga þegar hún er spurð út í viðtökurnar. „Maður situr alveg og fylgist með tölunum hækka og skilur í raun ekkert. Þetta er allt svo skrýtið,“ segir Bríet hógvær.
Kynntist honum sem gítarkennara og nú eru þau par
Þeir Þorleifur Gaukur Davíðsson, vinur Bríetar, og núverandi kærasti hennar Rubin Pollock spila með henni á plötunni sem hún semur ásamt Pálma Ragnari Ásgeirssyni. Gauki kynntist Bríet þegar hún spilaði í þættinum Sóttbarnalög sem sýndur var á RÚV en Rubin hins vegar þegar hún fór til hans í hljóðfæratíma og þau urðu skotin í hvort öðru. „Ég kynntist honum þegar hann var gítarkennarinn minn og núna er hann kærastinn,“ segir Bríet sposk. „Ég fór í einn tíma hjá honum til að kynnast honum betur og upp frá því vorum við par.“
„Úps, vitlaus Pálmi“
Sagan af kynnum Bríetar og Pálma er einnig nokkuð kostuleg. Pálmi er einn af þremur meðlimum í tónlistarframleiðslutríóinu StopWaitGo sem hafa sent frá sér margar plötur og smelli í samvinnu við hina ýmsu tónlistarmenn. Bríet var stödd í samkvæmi, sautján ára gömul, þegar önnur stelpa í partýinu segir að Pálmi hafi augastað á henni.
Bríet var spennt að kynnast Pálma en í staðinn fyrir að hafa samband við hann á klassíska mátann sendi hún honum það sem hún kallar fake message eða gerviskilaboð. „Ég spyr hann á menningarnótt klukkan hvað flugeldasýningin sé en sendi svo önnur skilaboð og segi: úps, vitlaus Pálmi, bara til að ná athyglinni,“ segir Bríet. Athyglina tókst henni líka að fanga og Pálmi kom og hlýddi á Bríeti spila á veitingastað um kvöldið. Eftir það hittust þau á fundi, fóru svo saman í stúdíó og sendu fljótlega frá sér lagið In too deep. „Það breytti svolítið öllu. Mikil athygli fylgdi því,“ segir hún.
Fer með bróður sínum í Bónus og fólk byrjar að slúðra
Kveðja, Bríet fjallar á mjög einlægan og opinskáan hátt um sambandsslit og erfiða ástarsorg sem Bríet gekk í gegnum og yrkir texta sína um. Hún segir textana flesta vera upp úr sinni eigin dagbók en þeir eru flestir mjög sárir. Hún viðurkennir að það sé að vissu leyti erfitt að opna sig á þennan hátt því fólk vilji vita meira og skálda jafnvel í eyðurnar um sambandið.
Gróa á Leiti hefur líka alveg litið við. „Það eru alveg sögur. Þegar maður fer í Bónus með bróður sínum er maður allt í einu kominn með kærasta en það er svolítið langt síðan maður hætti að pæla í því,“ segir hún. Það fari sér best að vera opin og þannig hefur hún alltaf verið. Og miðað við vinsældirnar virðast hlustendur tengja við hráar tilfinningarnar sem hún lýsir í textanum.