Fyrrverandi kærastinn hefur ekki tjáð sig um plötuna

Mynd: RUV / Ómissandi fólk

Fyrrverandi kærastinn hefur ekki tjáð sig um plötuna

09.11.2020 - 08:43

Höfundar

„Við höfum ekki átt þetta samtal enn. Það verður bara seinna held ég,“ segir söngkonan Bríet. Hún sendi nýverið frá sér einlæga plötu um sambandsslit og ástarsorg og er hún langvinsælasta plata landsins í dag. Maðurinn sem hún er ort um vissi af tilurð hennar og hvatti sína fyrrverandi kærustu til að draga ekkert undan í texta- og lagasmíðunum.

Tónlistarkonan Bríet er aðeins 21 árs en hefur á undraskömmum tíma tekist að verða einn vinsælasti tónlistarmaður landsins. Nýjasta plata hennar, Kveðja, Bríet, er langmest spilaða plata landsins í dag. Laginu Rólegur kúreki hefur til dæmis verið streymt oftar en fjögur hundruð þúsund sinnum á Spotify og platan hennar, sem inniheldur níu lög, er eins og hún leggur sig á meðal fimmtán vinsælustu laga landsins á streymisveitunni. Ekkert lát virðist ætla að vera á vinsældunum. Bríet kíkti í Rokkland til Ólafs Páls Gunnarssonar og sagði frá tilurð plötunnar og þeim svimandi vinsældum sem hún hefur öðlast. Þakklæti er henni efst í huga þegar hún er spurð út í viðtökurnar. „Maður situr alveg og fylgist með tölunum hækka og skilur í raun ekkert. Þetta er allt svo skrýtið,“ segir Bríet hógvær.

Kynntist honum sem gítarkennara og nú eru þau par

Þeir Þorleifur Gaukur Davíðsson, vinur Bríetar, og núverandi kærasti hennar Rubin Pollock spila með henni á plötunni sem hún semur ásamt Pálma Ragnari Ásgeirssyni. Gauki kynntist Bríet þegar hún spilaði í þættinum Sóttbarnalög sem sýndur var á RÚV en Rubin hins vegar þegar hún fór til hans í hljóðfæratíma og þau urðu skotin í hvort öðru. „Ég kynntist honum þegar hann var gítarkennarinn minn og núna er hann kærastinn,“ segir Bríet sposk. „Ég fór í einn tíma hjá honum til að kynnast honum betur og upp frá því vorum við par.“

„Úps, vitlaus Pálmi“

Sagan af kynnum Bríetar og Pálma er einnig nokkuð kostuleg. Pálmi er einn af þremur meðlimum í tónlistarframleiðslutríóinu StopWaitGo sem hafa sent frá sér margar plötur og smelli í samvinnu við hina ýmsu tónlistarmenn. Bríet var stödd í samkvæmi, sautján ára gömul, þegar önnur stelpa í partýinu segir að Pálmi hafi augastað á henni.

Bríet var spennt að kynnast Pálma en í staðinn fyrir að hafa samband við hann á klassíska mátann sendi hún honum það sem hún kallar fake message eða gerviskilaboð. „Ég spyr hann á menningarnótt klukkan hvað flugeldasýningin sé en sendi svo önnur skilaboð og segi: úps, vitlaus Pálmi, bara til að ná athyglinni,“ segir Bríet. Athyglina tókst henni líka að fanga og Pálmi kom og hlýddi á Bríeti spila á veitingastað um kvöldið. Eftir það hittust þau á fundi, fóru svo saman í stúdíó og sendu fljótlega frá sér lagið In too deep. „Það breytti svolítið öllu. Mikil athygli fylgdi því,“ segir hún.

Fer með bróður sínum í Bónus og fólk byrjar að slúðra

Kveðja, Bríet fjallar á mjög einlægan og opinskáan hátt um sambandsslit og erfiða ástarsorg sem Bríet gekk í gegnum og yrkir texta sína um. Hún segir textana flesta vera upp úr sinni eigin dagbók en þeir eru flestir mjög sárir. Hún viðurkennir að það sé að vissu leyti erfitt að opna sig á þennan hátt því fólk vilji vita meira og skálda jafnvel í eyðurnar um sambandið.

Gróa á Leiti hefur líka alveg litið við. „Það eru alveg sögur. Þegar maður fer í Bónus með bróður sínum er maður allt í einu kominn með kærasta en það er svolítið langt síðan maður hætti að pæla í því,“ segir hún. Það fari sér best að vera opin og þannig hefur hún alltaf verið. Og miðað við vinsældirnar virðast hlustendur tengja við hráar tilfinningarnar sem hún lýsir í textanum.

 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 

meet my new baby Bronco 88 Benni Vals #bennivalsson @lambertlambert_

A post shared by BRÍET (@brietelfar) on

Það er nostalgíubragur á plötunni sem er kántrísprengd, að hluta tekin upp á kasettu og á henni gætir áhrifa frá skandinavísku poppi en líka íslensku klassíkinni og Elly Vilhjálms. Sjálf segist hún heilluð af fortíðinni og hana langar að gefa plötuna út á kasettu, þó ekki væri nema bara í einu eintaki fyrir sjálfa sig svo hún geti spilað hana í bílnum sínum. Bríet er nefnilega ekki á samningi hjá bílafyrirtæki með glæsikerru í láni. Hún keyrir gamlan reykspólandi Ford Bronco með segulbandstæki. „Ég er með blæti fyrir fortíðinni, það sést,“ segir hún og hlær. „Þegar ég er ein heima er ég gjörn að stilla á sixtís og fiftís tónlist.“

Langar ekki að drekka áfengi

Bríet hefur verið opinská um fleira en sambandsslit, til dæmis um að hún hefur kosið að neyta ekki áfengis. Hún segir þá ákvörðun hafa verið bæði meðvitaða og ómeðvitaða í senn. „Það var ekkert planið að það myndi aldrei gerast en ég var meðvituð um að ég væri ekki hrifin af þessu,“ segir hún. Móðir hennar er opin eins og dóttirin og hafa þær rætt málin og þau áhrif sem áfengi getur haft. „Hún ræddi sín mistök og talaði um þau eðlilega. Það var enginn banntónn í því en það þróaðist þannig að maður fór að fylgjast með fólki í kringum sig og hvaða áhrif þetta væri að hafa,“ segir hún. Hún mætir samt í partí og spilar á börum og er oft í kringum fólk í glasi og það truflar hana ekkert.

Lag með Bubba og nýtt efni á ensku

Líkt og hjá flestum öðrum hafa síðustu misseri verið óvenjuleg í lífi Bríetar, ekki bara vegna plötunnar, sambandsslita og nýs ástarsambands heldur vegna þeirra takmarkana sem heimsfaraldrinum fylgja. Hún segir síðustu mánuði hafa verið skrýtna og erfiða en samkomubann þó hafa komið sér vel að einhverju leyti því það að vera knúin til að taka í bremsuna hefur gefið henni rými til að verja tíma í stúdíóinu að taka upp.

Það er engu að síður nóg framundan. Hún er búin að vera í stúdíóinu með Bubba Morthens og er lag væntanlegt frá þeim saman sem hún segir fjalla um þungt en mikilvægt mál. Einnig hefur hún verið að taka upp nýtt efni á ensku sem er væntanlegt á næsta ári. Húnstefnir einnig að útgáfutónleikum sem hún hyggst streyma en ekki hefur nein tímasetning verið ákveðin.

Honum finnst líklega erfitt að hlusta

En hvað ætli fyrrverandi kærastanum finnist um plötuna? „Þú verður að spyrja hann, ég veit ekki neitt,“ segir Bríet. Hann hefur ekki sett sig í samband við fyrrverandi kærustuna og sagt hvað honum finnist um plötuna en þau áttu þó í samræðum áður en hún kom út og hvatti hann Bríeti til að leggja öll spilin á borðið.

„Það var bara: Slepptu hestunum og ekki halda neinu aftur að þér,“ rifjar hún upp. „Ekki að maður þurfi að fá samþykki en það hefur alltaf verið allt í góðu og það lýsir okkar samskiptum.“ Hún telur líklegast að honum þyki erfitt að hlusta og hún skilur það. „Við höfum ekki átt þetta samtal enn. Það verður bara seinna held ég,“ segir hún.

Ólafur Páll Gunnarsson ræddi við Bríeti Ísis Elfar í Rokklandi á Rás 2. Hér má hlýða á allt viðtalið.

Tengdar fréttir

Tónlist

Skin og skúrir

Tónlist

Bríet hefði mátt vera orðljótari við kúrekann

Tónlist

Bríet um Esjuna: „Bara ástin maður“

Popptónlist

„Árið 2020 verður meiri Bríet“