Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Fyrirtæki áhugasöm um skógrækt – skattaafsláttur í boði

09.11.2020 - 13:28
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson Rúnar Sn - RÚV RÚV
Fyrirtæki sýna skógrækt aukinn áhuga en þau geta nú lækkað skattstofn sinn um 0,75% af veltu með aðgerðum til kolefnisjöfnunar. Skógræktarstjóri segir nóg pláss fyrir nýjan skóg í landinu. Erlend samtök ætla að gróðursetja í Breiðdal fyrir næstum 50 miljónir króna.

Skógræktin hvatti til þess að nýskógrækt yrði fjórfölduð til að auka bindingu kolefnis og skapa 250 ný ársverk. Þegar aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum var kynnt fyrir tveimur árum var talið að hún gæti tvö- og þrefaldað plöntun. Þröstur Eysteinsson, skógræktarstjóri, segir að síðan þá hafi pöntun aukist úr þremur í fimm milljónir plantna. Þar muni mikið um hálfa milljón birkis sem var atvinnuátak vegna COVID-19. Allt stefni í að tvöföldun náist árið 2023, með gróðursetningu 6 milljóna plantna. Þá verði plantað í 2000 hektara sem auki árlega bindingu kolefnis um 20 þúsund tonn. Fyrirtæki bæði innlend og erlend sýni skógrækt meira áhuga.

„Við höfum verið að vinna með Landsvirkjun í nokkur ár en nú hafa önnur fyrirtæki sýnt áhuga. Til dæmis í sjávarútveginum. Þar kemur til til dæmis breytingar á skattalögum þannig að það er hægt að fá skattafslátt upp að ákveðnu marki fyrir meðal annars að rækta skóg. Svo erum við með samning nýjan við erlendan aðila sem heitir One Tree Planted þar sem þeir ætla að fjármagna skógrækt á Ormsstöðum í Breiðdal. Það eru 140 hektarar þar sem Skógræktin á og verður gróðursett í á næstu tveimur árum. Þannig að þeta er aðeins byrjað að verða að veruleika að fyrirtæki komi sterkt inn,“ segir Þröstur. 

One Tree planted eru alþjóðleg samtök sem safna peningum til skógræktar frá fyrirtækjum og einstaklingum og gróðursetja víða um heim. Í Breiðdal verður gróðursett fyrir 49 milljónir. Þröstur segir nóg pláss fyrir plöntur í fjölmörgum skógræktarverkefnum um allt land. Skipuleggja megi nýja skóga án þess að trufla önnur landnot eða skerða útsýni. „Strax og maður nefnir skóg þá er landið að sökkva í skógi. Eða strax og maður nefnir skóg þá er allt útsýni úr myndinni. Það er auðvitað hjákátlegt að halda þessu fram. Þessum ýkjum. Ræktaður skógur þekur núna hálft prósent af Íslandi. Það má finna einhverja bletti þar sem skógur er fyrir útsýni. En að þetta sé eitthvert almennt vandamál eða að þetta sé eitthvað verðandi vandamál. Það er náttúrulega bara út í hött,“ segir Þröstur Eysteinsson, skógræktarstjóri.